Fótbolti

Meinaður aðgangur og neyddur til að afklæðast fyrir að bera regnbogalitina

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Anthony Johnson var neyddur til að afklæðast í lokuðu herbergi fyrir að bera regnbogalitina á leið sinni á leik Hollands og Katar.
Anthony Johnson var neyddur til að afklæðast í lokuðu herbergi fyrir að bera regnbogalitina á leið sinni á leik Hollands og Katar. iSport

Stuðningsmaður enska landsliðsins í knattspyrnu segir að hann neyddur til að afklæðast í lokuðu herbergi á meðan öryggisverðir leituðu á honum og að sér hafi verið meinaður aðgangur að leik Hollands og Katar og fyrir það að klæðast regnbogalitunum á leið sinni inn á leikvanginn á HM í Katar í gær.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem fréttir berast af því að stuðningsmenn hafi lent í vandræðum með að komast inn á leikvanga mótsins fyrir það eitt að bera regnbogalitina. Til að mynda voru hattar velskra stuðningsmanna teknir af þeim fyrr á mótinu.

Í kjölfar þess að hattarnir voru teknir af stuðningsmönnum velska landsliðsins gaf Alþjóðaknattspyrnusambandið FIFA út þá yfirlýsingu að regnbogalitirnir yrðu vissulega leyfðir í stúkum vallanna. 

Hins vegar komst Anthony Johnson, stuðningsmaður enska landsliðsins, að hinu gagnstæða á leið sinni á leik Hollands og Katar á Al Bayt vellinum. Hann segir að hann hafi verið látinn dúsa lengi inni í herbergi þar sem hann var látinn afklæðast á meðan leitað var á honum fyrir það eitt að klæðast bol þar sem merki enska landsliðsins var í regnbogalitunum ásamt því að vera með derhúfu sem einnig bar sömu liti.

Johnson segir að hann hafi þurft að klæða sig úr öllum fötunum, að nærfötum meðtöldum, fyrir framan öryggisvörð.

„Þegar við fórum í gegnum öryggishliðið á vellinum var ég beðinn um að taka af mér úrið og beltið, sem er eitthvað sem ég hafði ekki verið beðinn um á hinum átta leikjunum sem ég er búinn að fara á,“ sagði Johnson í samtali við iNews.

„Þegar ég fór aftur í gegnum hliðið mætti stór öryggisvörður og öskraði á mig og sagði að ég væri ekki að viðra þeirra menningu.“

„Þeir notuðu síðan svona vönd sem nemur málma. Vöndurinn fór ekki í gang, en þeir sögðu samt að ég væri með einhverja málma á mér og þá fóru þeir með mig í eitthvað hliðarherbergi þar sem þeir báðu mig fyrst um að fara úr stuttbuxubunum og síðan skónum. Svo báðu þeir mig um að fara úr buxunum og svo nærbuxunum og þá var ég orðinn allsnakinn.“

„Meðan að á þessu stóð voru þeir alltaf að fara með vöndinn yfir mig og fötin mín. Maðurinn sem var að leita á mér var orðinn hálfaulalegur undir lokinn því það var augljóst að hann var ekki að fara að finna neitt. Þetta stóð yfir í um tíu mínútur,“ sagði Johnson að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×