Fótbolti

53 betri markaár hjá karlalandsliðinu heldur en árið í ár

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Íslenska karlalandsliðinu gekk illa að skora mörk á árinu 2022.
Íslenska karlalandsliðinu gekk illa að skora mörk á árinu 2022. Vísir/Hulda Margrét

Íslenska karlalandsliðið í fótbolta skoraði minna en mark í leik á árinu 2022 sem er eitt það lélegasta í sögu landsliðsins.

Strákarnir okkar skoruðu tólf mörk í fjórtán leikjum sínum á árinu 2022 en liðið skoraði úr vítaspyrnu í lokaleik sínum um helgina.

Þetta gera 0,86 mörk að meðaltali í leik og skipar þetta ár 54. sætið á listanum yfir bestu markaár íslenska landsliðið frá því að það lék sinn fyrsta landsleik árið 1946.

Íslenska landsliðið var með yfir mark í leik í fyrra (1,23 mörk) en var enn verra árið á undan þegar liðið skoraði aðeins átta mörk í tíu leikjum eða 0,80 mörk í leik. Árið 2020 er í 57. sæti yfir bestu markaárin.

Þrír leikmenn voru markahæstir hjá landsliðinu á árinu 2022 en þeir Þórir Jóhann Helgason, Ísak Bergmann Jóhannesson og Jón Dagur Þorsteinsson náðu allir að skora tvö mörk fyrir íslenska landsliðið á árinu.

Þetta er auðvitað mikil breyting því á árunum 2012 til 2019 voru sjö af átta árum inn á topp þrjátíu yfir bestu markaár íslenska landsliðsins.

Besta markaár landsliðsins frá upphafi er árið 1951 en þá skoraði íslenska landsliðið fimm mörk í tveimur landsleikjum eða 2,5 mörk í leik. Íslenska landsliðið hefur síðan skorað tvö mörk í leik á fjórum árum eða 1947, 1948, 1958 og 1961.

Lélegustu árin skipa 74. sæti listans en á þeim árum náði íslenska liðið ekki að skora eitt einasta mark.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×