Erlent

43 ár á valdastóli og með 99 prósent atkvæða

Bjarki Sigurðsson skrifar
Teodoro Obiang hefur setið í valdastóli Miðbaugs-Gíneu í 43 ár.
Teodoro Obiang hefur setið í valdastóli Miðbaugs-Gíneu í 43 ár. Getty/Wilfred Kajese

Flokkur Teodoro Obiang, forseta Miðbaugs-Gíneu, hefur tryggt sér 99 prósent atkvæða í kosningunum þar í landi. Það stefnir allt í að þaulsetnasti forseti heims sitji áfram á valdastóli. 

Obiang varð fyrst forseti árið 1982 en þrjú ár fyrir það var hann leiðtogi herstjórnar landsins. Hann hefur  verið forseti í fjörutíu ár og einn mánuð, einum mánuði meira en Paul Biya, forseti Kamerún. 

Síðan árið 1982 hafa Miðbaugs-Gíneumenn fimm sinnum kosið sér forseta og hefur Obiang alltaf sigrað, iðulega með yfir níutíu prósent atkvæða.

Á sunnudaginn gengu þeir að kjörborðinu og sem stendur hefur sitjandi forseti hlotið 99,7 prósent talinna atkvæða. CNN segir mótframbjóðanda Obiang hafa sakað forsetann um kosningasvindl. Hann vill meina að yfirvöld hafi neytt fólk til að kjósa Obiang og kosið fyrir hönd fólks sem ætlaði sér ekki að kjósa. 

Miðbaugs-Gínea er mikið jarðefnaeldsneytisríki og lifa þeir valdamestu í landinu afar dýrum lífsstíl á meðan sjötíu prósent íbúa glíma við fátækt. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×