Fótbolti

Fagnaði fyrir Fin­lay

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Jack Grealish og fagnið sem um er ræðir.
Jack Grealish og fagnið sem um er ræðir. Matthew Ashton/Getty Images

Varamaðurinn Jack Grealish skoraði eitt af sex mörkum Englands í stórsigri liðsins á Íran í fyrsta leik liðanna á HM í fótbolta sem nú fer fram í Katar. Vakti það athygli hvernig Grealish fagnaði marki sínu en fagnið var tileinkaði ungum dreng að nafni Finlay, sá er með heilalömun [e. cerebral palsy].

Grealish kom inn af bekknum þegar tuttugu mínútur lifðu leiks og skoraði sjötta mark Englands þegar venjulegur leiktími var við það að renna út. Staðan þá 6-1 en Íran minnkaði muninn með marki úr vítaspyrnu þegar vel yfir 100 mínútur voru liðnar.

Lokatölur 6-2 og þó stórsigur Englands hafi vissulega vakið athygli þá gerði fagn hins 27 ára gamla Grealish það sömuleiðis. Eftir að koma boltanum í netið þá fagnaði leikmaðurinn með því að baða út höndunum. Hann hafði lofað góðvini sínum Finlay að fagna á slíkan hátt en þeir hittust fyrir ekki svo löngu.

Finlay er 11 ára gamall og án efa einn helsti aðdáandi Grealish. Þá heldur hann með Manchester City sem og enska landsliðinu. Finley er með heilalömum, eitthvað sem Grealish þekktir vel en systir hans er einnig með heilalömun.

Eftir að skrifa Grealish bréf þá ákvað leikmaðurinn að koma sínum helsta aðdáenda á óvart og senda honum áritaða treyju sem og að hitta hann í persónu. Sjá má spjall þeirra að neðan en í lok myndbandsins fær Finlay að ákveða hvernig Grealish fagnar ef hann skorar á HM. Grealish benti þó á að hann hefði aðeins skorað eitt mark á leiktíðinni en hann myndi gera sitt besta.

Upphaflega vildi Finlay að Grealish myndi gera „orminn“ en leikmaðurinn var ekki alveg á þeim buxunum. Á endanum samþykkti hann að baða út höndunum eins og sjá má í myndbandinu hér að ofan. Grealish stóð við loforðið og má reikna með að einn stuðningsmaður Englands hafi fagnað meira en aðrir þegar hann sá Grealish skora, hvað þá eftir að hann sá Grealish fagna.

England mætir Bandaríkjunum á föstudag, 25. nóvember, og Wales á þriðjudeginum í næstu viku, 29. nóvember.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×