Englendingar sögðu sex í fyrsta leiknum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Bukayo Saka skoraði tvö mörk gegn Íran.
Bukayo Saka skoraði tvö mörk gegn Íran. getty/Eddie Keogh

Englendingar hófu heimsmeistaramótið í Katar með 6-2 stórsigri á Írönum í B-riðli. Bukayo Saka skoraði tvö mörk og Jude Bellingham, Raheem Sterling, Marcus Rashford og Jack Grealish skoruðu mörk Englands en Mehdi Taremi bæði mörk Írans.

Þetta er annað heimsmeistaramótið í röð sem Englendingar skora sex mörk í leiknum. Á HM 2018 vann England Panama, 6-0, í riðlakeppninni.

Miklar tafir urðu á leiknum í byrjun vegna meiðsla markvarðar Írans, Alireza Beiranvand. Hann þurfti að fara af velli og í stað hans kom Hossein Hosseini. Hann átti erfitt uppdráttar.

Bellingham kom Englandi yfir á 35. mínútu með skalla eftir fyrirgjöf Lukes Shaw. Hann er næstyngstur til að skora fyrir England á HM á eftir Michael Owen.

Jude Bellingham kemur Englandi yfir með laglegum skalla.getty/Julian Finney

Átta mínútum síðar tók Shaw hornspyrnu og Harry Maguire skallaði boltann fyrir Saka sem skoraði með skoti í slá og inn. Í uppbótartíma fyrri hálfleiks skoraði svo Sterling þriðja mark enska liðsins eftir fyrirgjöf Harrys Kane. Staðan var 3-0 í hálfleik, Englandi í vil.

Á 62. mínútu skoraði Saka annað mark sitt og fjórða mark Englands en Taremi minnkaði muninn þremur mínútum síðar með góðu skoti í slána og inn.

Gareth Southgate nýtti allar skiptingarnar sínar og tveir af varamönnunum skoruðu síðustu tvö mörk Englands. Á 71. mínútu skoraði Rashford eftir að hafa leikið skemmtilega á varnarmann Írans. Hann hafði þá aðeins verið inni á vellinum í 49 sekúndur. Aðeins tveir varnarmenn í sögu HM hafa verið sneggri að skora.

Í uppbótartíma slapp Callum Wilson í gegnum vörn Írans og lagði boltann til hliðar á Grealish sem skoraði af stuttu færi.

Þegar þrettán mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma lagaði Taremi svo stöðuna þegar hann skoraði úr vítaspyrnu. Lokatölur 6-2, Englandi í vil.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira