Innlent

„Ef þetta er sönn saga um sæðis­frumurnar eru alls konar á­hyggjur sem fara að myndast“

Snorri Másson skrifar

Mannkynið gæti staðið frammi fyrir frjósemiskrísu á komandi tímum ef ekkert verður aðhafst, að því er kemur fram í grein í Guardian. Þar segir að sæði í karlmönnum verði sífellt máttlausara og að fjöldi sæðisfrumna í körlum hafi hrunið um helming á síðustu fjörutíu árum. Þróunin er að stigmagnast.

Fjallað er um málið í Íslandi í dag sem sjá má hér að ofan. Þar er Kári Stefánsson læknir og forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar til viðtals um þetta og annað.

Kári Stefánsson læknir og forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar var til viðtals í Íslandi í dag.vísir/vilhelm

Kári segir ekki einhlítt að þróunin sé eins slæm og lýst er í grein Guardian, sem unnin er á grunni tímaritsins Human Reproduction Update. „Þannig að ég held að þetta sé sú tegund af vísindarannsókn sem væri best að birta í Guardian frekar en í virtu vísindatímariti,“ segir Kári.

Engu að síður segir Kári: „Þessi rannsókn er að vissu leyti athyglisverð en hún sýnir alls ekki óyggjandi fram á að það sé einhver minnkun í fjölda sæðisfrumna hjá karlmönnum. Hún bendir til að sá möguleiki sé fyrir hendi. En ef það er að fækka sæðisfrumum hjá karlmönnum í dag þá getur það átt rætur sínar í því að þessi fjöldi hafi verið meiri en venjulega fyrir 20-30 árum síðan. 

Við höfum ekki hugmynd um hvað þetta þýðir í sögulegu samhengi. Þess utan ber að gæta þess að þeir sem fara og láta telja úr sér sáðfrumur eru venjulega karlmenn sem eiga við erfiðleika að stríða þegar kemur að frjósemi.“

Á sama tíma er greint frá því að fæðingartíðni á meðal Íslendinga er að lækka og hefur verið að gera frá 2015 eða 2016. Kári kveðst handviss um að sú fækkun hafi ekkert með líffræði að gera, heldur val fólks. „En ef þetta er sönn saga um sæðisfrumurnar eru alls konar áhyggjur sem fara að myndast. Og alls konar spurningar sem vakna. En þeim svörum við ekki hér,“ segir Kári.

Fjallað er um margt annað í þætti miðvikudags, allt frá bankasölunni til oftalningar Íslendinga, sem nýverið kom í ljós.


Tengdar fréttir

„Þetta kom mér alls ekki á óvart“

Ólöf Garðarsdóttir sagnfræðingur segir margar skýringar á því hvers vegna mannfjöldi var oftalinn um tíu þúsund hér á landi, eins og kom í ljós í nýju manntali Hagstofunnar. Ein sú helsta séu útlendingar sem flytja aftur til síns heima.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×