Fótbolti

Gaf pabba sínum ferð á HM en verður svo með á mótinu

Sindri Sverrisson skrifar
Thiago Almada í vináttulandsleik gegn Hondúras í haust.
Thiago Almada í vináttulandsleik gegn Hondúras í haust. Getty/Eric Espada

Lionel Scaloni, landsliðsþjálfari Argentínu, leit framhjá Manchester United-ungstirninu Alejandro Garnacho og valdi Thiago Almada þegar pláss losnaði í HM-hópi liðsins.

Joaquin Correa, sóknarmaður Inter, varð að draga sig út úr argentínska hópnum vegna meiðsla. Scaloni hefur því kallað á Almada sem er 21 árs gamall leikmaður Atlanta United.

Almada skoraði sex mörk og átti sjö stoðsendingar á síðustu leiktíð í MLS-deildinni og var í algjöru lykilhlutverki hjá Atlanta United.

Hann hafði hins vegar afskrifað möguleikann á að komast á HM eftir að Scaloni tilkynnti 26 manna hópinn sinn og var í mikilli geðshræringu þegar hann fékk að vita að draumur sinn myndi rætast, eins og faðir hans benti á í útvarpsviðtali:

„Thiago hringdi í mig grátandi og öskrandi, til að segja mér þetta. Hann var búinn að gefa mér miða til Katar á feðradaginn. Við trúum þessu ekki. Núna þurfum við öll að ferðast,“ sagði pabbinn í gær.

Argentína spilar sinn fyrsta leik á HM gegn Sádi Arabíu eftir fjóra daga. Liðið er einnig í riðli með Mexíkó og Póllandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×