Erlent

Pelosi stígur til hliðar eftir tæplega tveggja áratuga forystu

Kjartan Kjartansson skrifar
Þingheimur klappaði vel og lengi fyrir Nancy Pelosi eftir að hún tilkynnti að hún ætlaði að stíga til hliðar úr forystu Demókrataflokksins í fulltrúadeild Bandaríkjaþings.
Þingheimur klappaði vel og lengi fyrir Nancy Pelosi eftir að hún tilkynnti að hún ætlaði að stíga til hliðar úr forystu Demókrataflokksins í fulltrúadeild Bandaríkjaþings. AP/Carolyn Kaster

Nancy Pelosi, fráfarandi forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, sækist ekki eftir því að leiða Demókrataflokkinn í deildinni á komandi kjörtímabili. Hún hefur verið í forystu flokksins í neðri deild þingsins í nærri því tuttugu ár.

„Ég sækist ekki eftir endurkjöri í forystu Demókrataflokksins á næsta þingi. Fyrir mér er stundin runnin upp fyrir nýja kynslóð að taka við þingflokki demókrata sem mér er svo annt um,“ sagði Pelosi í ræðu í fulltrúadeildinni í dag og hlaut standandi lófatak.

Pelosi, sem er 82 ára gömul, ætlar að sitja áfram sem þingmaður en hún var endurkjörin í þingkosningunum sem fóru fram fyrr í þessum mánuði. Demókratar misstu meirihluta sinn í fulltrúadeildinni en héldu velli í öldungadeildinni. Nýtt þing kemur saman í janúar.

Mögulegur arftaki hennar sem leiðtogi flokksins í fulltrúadeildinni hefur verið nefndur Hakeem Jeffries, þingmaður flokksins frá New York. Hann ætti þá möguleika á að verði fyrsti blökkumaðurinn til að verða forseti fulltrúadeildarinnar.

Fyrsti kvenleiðtoginn, þingflokksformaðurinn og forsetinn

Þingferill Pelosi markaði tímamót á margan hátt. Hún var fyrst kjörin á þing fyrir San Francisco í Kaliforníu árið 1987 og var kjörin þingflokksformaður árið 2002. Ári síðar varð hún leiðtogi flokksins í fulltrúadeildinni. Hún var fyrsta konan til að verða þingflokksformaður og flokksleiðtogi í sögu Bandaríkjaþings.

Þegar demókratar unnu sigur í þingkosningum á miðju seinna kjörtímabili repúblikanans Georges W. Bush árið 2006 varð Pelosi fyrsta konan til að verma sæti forseta fulltrúadeildarinnar árið 2007. Demókratar töpuðu meirihlutanum í kosningunum 2010 en þegar þeir endurheimtu hann árið 2018 varð Pelosi aftur forseti deildarinnar.

Sem forseti fulltrúadeildarinnar kom Pelosi meðal annars í gegn sjúkratryggingarlögum Baracks Obama, þáverandi forseta, sem hafa gjarnan verið kennd við hann. Þá hafði hún umsjón með því þegar Donald Trump, fyrrverandi forseti, var í tvígang kærður fyrir embættisbrot.

Joe Biden Bandaríkjaforseti sagði í tísti að sagan ætti eftir að minnast Pelosi sem eins áhrifamesta forseta fulltrúadeildarinnar.

„Bandaríkin standa í þakkarskuld við hana fyrir þjónustu hennar, föðurlandsást og reisn,“ sagði forsetinn.

Nýlega var brotist inn á heimili Pelosi í San Francisco og eiginmaður hennar, Paul, barinn í höfuðið með hamri. Paul Pelosi sagði lögreglu að árásarmaðurinn hefði öskrað „Hvar er Nancy?“. Árásarmaðurinn er sagður hafa aðhyllst ýmis konar samsæriskenningar sem hafa grasserað á hægri væng bandarískra stjórnmála. Fjöldi repúblikana brást við fréttunum með því að hæðast að árásinni eða gera lítið úr henni.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×