Fótbolti

Sverrir Ingi: Vantaði aðeins meiri gæði

Smári Jökull Jónsson skrifar
Sverrir vinnur skallaeinvígi í leiknum í dag.
Sverrir vinnur skallaeinvígi í leiknum í dag. KSÍ

Sverrir Ingi Ingason var mættur aftur í vörnina hjá íslenska landsliðinu eftir ansi langa fjarveru. Hann var ánægður með sigurinn gegn Litáum í dag en sagði að vantað hefði upp á gæðin hjá Íslandi í vissum aðstæðum.

„Ég er ánægður að vinna. Þetta var baráttuleikur, völlurinn var erfiður og það var mikið um návígi. Mér fannst við skapa okkur nokkur góð tækifæri, það vantaði að komast á boltann inni í teig og ráðast á krossana aðeins betur. Það er gott að vinna.“

Sverrir Ingi sagði að liðið hefði mætt líkamlega sterkum Litáum ágætlega en að vantað hefði upp á gæðin á síðasta leikþriðjungi.

„Við vissum að þeir væru líkamlega sterkir og að þetta yrði þannig leikur. Mér fannst við jafna það vel en hefðum mátt vera með aðeins meiri gæði á þriðja helmingi þegar við vorum að komast í góðar stöður með boltann. Þá vantaði síðustu sendingu eða annað til að ná að klára. Sérstaklega í fyrri hálfleik fannst mér við komast í góðar stöður. Við skoðum þetta og verðum klárir fyrir næsta leik.“

Sverrir Ingi skoraði í vítaspyrnukeppninni þar sem Ísland tryggði sér sigur og var ánægður með liðið þar. Hann sagðist allvanur slíkum keppnum.

„Ég hef gert það nokkrum sinnum, þetta var í fyrsta skipti með landsliðinu. Við unnum og tökum það jákvæða út úr þessu. Við stóðum okkur vel í vítunum, skoruðum úr öllum og ég held að það sé bara nokkuð gott.“

Á laugardag mætir Ísland Lettlandi í úrslitaleik Eystrasaltsbikarsins og sagði Sverrir að markmiðin væru klár.

„Það verður hörkuleikur og ennþá sterkari mótherji býst ég við. Strákarnir voru að tala um að þeir hafi unnið þetta mót í mörg ár. Við verðum að vera klárir og ná góðri endurheimt fyrir leikinn á laugardag. Við erum komnir hingað til að sækja dolluna, það er klárt.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×