Tónlist

Gefur lagið loksins út tíu árum síðar

Elísabet Hanna skrifar
Móðurást mun tilheyra komandi breiðskífu Guðrúnar.
Móðurást mun tilheyra komandi breiðskífu Guðrúnar. Kevin Pagès

Tónlistarkonan og læknaneminn Guðrún Ólafsdóttir, einnig þekkt undir listamannsnafninu ЯÚN, var að gefa út lagið Móðurást. Texti lagsins er úr samnefndu ljóði Jónasar Hallgrímssonar en í dag er dagur íslenskrar tungu sem haldinn er á fæðingardegi skáldsins.

Langur ferill að baki

Áður en Guðrún fór að gefa út tónlist undir nafninu ЯÚN var hún í hljómsveitunum White Signal og Náttsól. Sú fyrrnefnda var tilnefnd sem bjartasta vonin á Íslensku tónlistarverðlaununum vorið 2012 og sú síðarnefnda sigraði Söngkeppni framhaldsskólanna árið 2016. 

Einnig sigraði hljómsveitin White Signal Jólalagakeppni Rásar 2 árið 2011 og 2012 með lögum sem Guðrún samdi. „Ég hef alltaf haft mikla ástríðu fyrir söng í mörgum röddum og breiðum harmoníum sem gjarnan einkenna tónlist mína,“ segir hún.

Ný plata með lögum við ljóð

Guðrún hefur undir nafninu ЯÚN meðal annars gefið út lagið Það vex eitt blóm fyrir vestan við ljóð Steins Steinarrs. Bæði lögin tilheyra komandi concept-plötu hennar með lögum við bæði þekktar og minna þekktar íslenskar ljóðlistarperlur. Platan mun bera heitið Gleym mér ei og segir Guðrún það enga tilviljun:

„Gleym mér ei er skírskotun í þá ósk mína að þessi dýrmæti menningararfur muni ekki gleymast heldur lifa áfram með komandi kynslóðum.“

Tíu ár síðan hún byrjaði að semja lagið

„Ég hef aldrei setið jafn lengi á einu lagi áður og Móðurást, enda er það mér afar kært og á sér mikla sögu,“ segir hún. Grunninn að laginu samdi Guðrún í tíunda bekk og flutti á degi íslenskrar tungu á samkomu sem var haldin fyrir grunnskóla í hverfinu hennar. „Því fannst mér við hæfi að gefa það loks út á sama degi, tíu árum seinna!“


Tengdar fréttir

„Stimplaðar sem einungis kyntákn“

Söngkonan Helga Soffía, einnig kölluð Heía var að gefa út sitt fyrsta lag eftir að hafa verið uppgötvuð í skólasöngleiknum Clueless. Ásamt því að syngja er hún einnig lagahöfundur og leikkona sem er að vinna að sinni fyrstu EP plötu.

„Það var mjög kalt þetta kvöld“

„Við viljum vera innblástur fyrir aðra til að láta vaða og lifa í núinu,“ segir hljómsveitin Karma Brigade. Meðlimir hennar eru þau Agla Bríet Bárudóttir, Jóhann Egill Jóhannsson, Steinunn Hildur Ólafsdóttir, Hlynur Sævarsson og Alexander F. Grybos og var hún stofnuð fyrir fimm árum síðan.

White Signal sigurvegari

Sigurvegari í Jólalagakeppni Rásar 2 árið 2012 er hljómsveitin White Signal frá Reykjavík, annað árið í röð, nú með laginu Mín bernsku jól.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×