Fótbolti

Guðbjörg fær loksins styttuna í jólagjöf

Sindri Sverrisson skrifar
Guðbjörg Gunnarsdóttir varði mark Íslands til að mynda á þremur stórmótum.
Guðbjörg Gunnarsdóttir varði mark Íslands til að mynda á þremur stórmótum. VÍSIR/DANÍEL

Enn bætist í hóp landsliðskvenna sem gagnrýna Knattspyrnusamband Íslands fyrir skort á viðurkenningu í þeirra garð, eftir að Aron Einar Gunnarsson var heiðraður með sérstakri treyju eftir hundraðasta landsleik sinn í gær.

Dagný Brynjarsdóttir vakti máls á því í gær að hvorki hún né Glódís Perla Viggósdóttir hefðu fengið nokkra viðurkenningu frá KSÍ eftir að hafa í apríl spilað sinn 100. A-landsleik. Dagný benti á að bæði Aron og Birkir Bjarnason hefðu fengið sérstaka 100 landsleikja treyju að gjöf.

Í kjölfarið benti svo Margrét Lára Viðarsdóttir, langmarkahæsta landsliðskona í sögu Íslands, á það að þrátt fyrir að hafa spilað með öllum landsliðum Íslands frá 14 ára aldri, eða í átján ár, hefði hún aldrei verið kvödd eða fengið tækifæri til að þakka stuðningsmönnum fyrir sig.

Nú hefur markvörðurinn Guðbjörg Gunnarsdóttir bæst í hópinn og bent á að hún bíði enn eftir styttu sem landsliðsfólk á að fá að gjöf fyrir að ná 50 landsleikjum fyrir Íslands hönd.

Allar þrjár taka þær fram að um „litlu hlutina“ sé að ræða, sem KSÍ virðist hafa gleymt eða hundsað.

Í reglugerð KSÍ um landsliðs- og heiðursviðurkenningar segir að veita skuli knattspyrnustyttu í viðurkenningarskyni þeim leikmönnum sem náð hafa að leika 50 A-landsleiki. Einnig segir þar að veita eigi leikmönnum sem ná 100 A-landsleikjum sérhannað listaverk í viðurkenningarskyni.

Guðbjörg lék sinn fyrsta A-landsleik í mars 2004 og þann 64. og síðasta árið 2019. Hún lék 50. A-landsleik sinn gegn Írlandi í vináttulandsleik sumarið 2017, í aðdraganda EM í Hollandi.

Uppfært klukkan 11.40: Guðbjörg greindi frá því á Twitter að KSÍ hefði strax brugðist við og að hún myndi fá styttuna afhenta um jólin þegar hún kæmi til Íslands frá Svíþjóð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×