Dagný birtir mynd af Aroni Einari Gunnarssyni fyrirliða landsliðsins þar sem hann heldur á landsliðstreyju sem hann fékk sem viðurkenningu fyrir að hafa leikið 100 landsleiki en þeim áfanga náði hann í dag þegar Ísland beið lægri hlut gegn Sádi Arabíu.
Í færslunni kemur fram að Birkir Bjarnason hafi fengið sína treyju í september 2021 en að Dagný og Glódís Perla Viggósdóttir bíði enn eftir að fá sínar treyjur afhentar. Báðar léku þær sinn hundraðasta leik þegar Ísland mætti Hvíta-Rússlandi þann 7.apríl á þessu ári.

„Birkir Bjarna fékk treyju eftir sinn leik í sept ´21. Aron Einar fékk treyju eftir sinn leik í dag. Við Glódís Perla erum enn að bíða eftir okkar 100 leikja treyju síðan í apríl. Litlu hlutirnir í þessari blessuðu baráttu alla daga,“ skrifar Dagný og er greinilega ósátt með stöðu mála.
Dagný hefur verið lykilmaður í landsliðinu um árabil en hún leikur í dag með West Ham í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu.