Fótbolti

Vara­maðurinn Bale hetjan þegar Los Angeles FC varð MLS meistari

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Gareth Bale skoraði ótrúlegt jöfnunarmark í nótt.
Gareth Bale skoraði ótrúlegt jöfnunarmark í nótt. Los Angeles FC

Los Angeles FC er MLS meistari eftir hádramatískan sigur á Philadelphia Union eftir vítaspyrnukeppni. Gareth Bale kom inn af bekknum og jafnaði metin í 3-3 á 128. mínútu leiksins. Markið má sjá hér að neðan.

Los Angeles FC var sigurstranglegra fyrir leik enda liðið verið nær óstöðvandi það sem af er leiktíð. Vængmaðurinn knái Gareth Bale hefur verið að glíma við meiðsli og var á bekknum í nótt. Hinn 38 ára gamli miðvörður Giorgio Chiellini var líka á bekknum en það virtist ekki ætla að koma að sök þar sem Kellyn Acosta kom Los Angeles yfir eftir tæpan hálftíma.

Daniel Gazdag jafnaði metin fyrir Philadelphia áður en Carlos Vela gaf á Jesus Murillo og Los Angeles var 2-1 yfir þegar sjö mínútur voru til leiksloka. Leikmenn Union létu það ekkert á sig fá og hafði Jack Elliott jafnað metin aðeins tveimur mínútum síðar. Staðan 2-2 þegar flautað var til loka venjulega leiktíma og því þurfti að framlengja.

Þar jókst dramatíkin en Maxime Crepeau, markvörður Los Angeles var rekinn af velli þegar fjórar mínútur voru eftir af framlengingunni. Mikið var um tafir og uppbótartíminn gríðarlegur. Þegar 124 mínútur voru komnar á klukkuna skoraði Elliott sitt annað mark í leiknum og virtist vera að tryggja Union sigur í MLS deildinni.

Bale hélt nú aldeilis ekki og stangaði fyrirgjöf Diego Palacios í netið á 128. mínútu og staðan orðin 3-3. Stuttu eftir það lauk framlengingunni loks og því þurfti vítaspyrnukeppni til að útkljá málin.

Þar reyndust leikmenn Los Angeles mun sterkari en Union skoraði ekki úr einni af þremur spyrnum sínum. Los Angeles FC er því MLS meistari eftir hádramatískan úrslitaleik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×