Fótbolti

Pep við Zlatan: „Skrifaðu aðra bók“

Smári Jökull Jónsson skrifar
Pep Guardiola og Zlatan Ibrahimavic eru enn og aftur komnir í hár saman.
Pep Guardiola og Zlatan Ibrahimavic eru enn og aftur komnir í hár saman. Vísir/Getty

Pep Guardiola og Zlatan Ibrahimovic eru engir sérstakir vinir. Nú hefur þeim enn og aftur lent saman eftir að Ibrahimovic sagði í viðtali að egó Guardiola kæmi í veg fyrir framfarir Erling Haaland hjá Manchester City.

Zlatan var í liði Barcelona árin 2009-2011 undir stjórn Guardiola og gaf Spánverjanum enga sérstaka dóma í ævisögu sinni sem hann gaf út árið 2011.

„Ég öskraði: Þú ert ekki með pung. Þú kúkar á þig fyrir framan Mourinho. Farðu til helvítis,“ skrifaði Zlatan í bók sinni og hefur í seinni tíð sagt að Guardiola sé barnalegasti þjálfari sem hann hefur haft.

Á dögunum fór Zlatan síðan í viðtal hjá frönsku sjónvarspsstöðinni Canal+ og fékk þar spurningar um velgengni Erling Haaland hjá Manchester City en Norðmaðurinn hefur byrjað tímabilið stórkostlega á Englandi.

„Getur Guardiola gert Haaland ennþá betri? Það fer eftir egói Guardiola, ef hann leyfir Haaland að vera stærri karakter en hann sjálfur. Hann leyfði hvorki mér né öðrum leikmönnum að vera það,“ sagði Svíinn.

Pep Guardiola var spurður út í þessi ummæli Zlatan á blaðamannafundi fyrir leik Manchester City gegn Fulham í dag. Hann svaraði kaldhæðnislega að hann væri stærsti egóistinn hjá Englandsmeisturunum.

„Hann hefur rétt fyrir sér, algjörlega rétt. Hjá þessu félagi, í þessu liði er egóið mitt stærra en frammistöður allra leikmanna. Ég er ekki ánægður með það þegar Erling skorar þrjú mörk og allt fjallar um hann. Ég verð svo öfundssjúkur. Í alvöru talað, svo öfundssjúkur.“

„Ég segi við Erling: Gerðu það, ekki skora fleiri mörk því þá skrifa The Sun og Daily Mail ekki neitt um mig. Zlatan þekkir mig vel. Hann getur kannski skrifað nýja bók því hann hefur rétt fyrir sér, egóið mitt er risastórt.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×