Vísir greindi frá því fyrir hádegi að Unnur Berglind Friðriksdóttir, formaður Sjálfstæðisfélags Kópavogs, telur stuðningsmenn Bjarna Benediktssonar formanns fara offari í kosningabaráttunni. Hún lýsir í því samhengi nokkru sem hún upplifði sem einskonar þriðju gráðu yfirheyrslu kjörbréfanefndar þar sem látið var að liggja að eitthvað væri gruggugt við það hverjir komi á Landsfund Sjálfstæðisflokksins um næstu helgi.
Vert að athuga með landsfundafulltrúa úr Kópavoginum
Mjög er tekið að hitna í kolum vegna formannskjörs en þar takast á þeir Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður flokksins, og Guðlaugur Þór Þórðarson, ráðherra og oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.
Unnur Berglind telur fyrirliggjandi að nefndarmenn séu einarðir stuðningsmenn Bjarna og að þeir hafi misnotað aðstöðu sína með því að þjarma að sér: „Ég var boðuð í yfirheyrslur í bakherbergi í Valhöll í fyrrakvöld fyrir nefnd sem ágætur (eða ekki) þekktur lögmaður er í forsvari. Þar var talað niður til mín og ég lítilsvirt.“
Þeir sem eiga sæti í kjörbréfanefndinni, Brynjar Níelsson formaður, Davíð Þorláksson og Arnar Þór Stefánsson, hafa nú sent frá sér yfirlýsingu þar sem þeir árétta að nefndin starfi í umboði miðstjórnar flokksins. Hún hafi það hlutverk að fara yfir kjörbréf þeirra fulltrúa sem félög og fulltrúaráð á vegum flokksins hafa kjörið til setu á fundinum.
„Nefndin hefur verið að störfum síðan á mánudag. Henni hafa borist ýmsar ábendingar sem leyst hefur verið úr.
Meðal annars bárust ábendingar varðandi kjör fulltrúa í Kópavogi sem vert væri að athuga.
Af því tilefni boðaði nefndin m.a. formann Sjálfstæðisfélags Kópavogs til fundar til að skýra nokkur atriði varðandi framkvæmd fulltrúakjörs,“ segir í yfirlýsingunni.
Vegið að starfsfólki Sjálfstæðisflokksins
Þá beina þeir spjótum að orðum Unnar Berglindar og vilja meina að þar sé vegið ómaklega að að starfsfólki Sjálfstæðisflokksins og látið í veðri vaka að það vinni fyrir einn frambjóðanda umfram annan:
„Kjörbréfanefnd vísar þessum fullyrðingum formannsins á bug. Starfsfólk Sjálfstæðisflokksins vinnur með þau gögn sem stjórnir sjálfstæðisfélaga og fulltrúaráða senda til skrifstofu flokksins. Starfsfólk er ekki úrskurðaraðili í álitamálum og ber ekki ábyrgð á fulltrúakjöri á landsfund. Starfsfólk Sjálfstæðisflokksins ber enga ábyrgð á því að nefndin hafi talið þörf á að kalla formann Sjálfstæðisfélags í Kópavogs til fundar. Ekkert hefur komið fram við yfirferð kjörbréfanefndar á kjörbréfum sem bendir til annars en að starfsfólk Sjálfstæðisflokksins hafi unnið sín verk af ábyrgð og einurð við undirbúning fundarins.“
Þá segir að kjörbréfanefnd beri fulla ábyrgð á sinni vinnu og niðurstöðum. Og að hún harmi „að formaður Sjálfstæðisfélags Kópavogs hafi séð tilefni til að vega að starfsfólki Sjálfstæðisflokksins.“