Innlent

Aron og Embla vinsælustu mannanöfnin í fyrra

Kjartan Kjartansson skrifar
Níu af hverjum tíu börnum sem fæddust í fyrra var gefið annað eiginnafn.
Níu af hverjum tíu börnum sem fæddust í fyrra var gefið annað eiginnafn. Vísir/Getty

Nafnið Aron var vinsælasta eiginnafnið á meðal nýfæddra drengja á Íslandi í fyrra, annað árið í röð Embla var vinsælasta stúlkunafnið.

Samkvæmt tölum sem Þjóðskrá birti í gær hlaut 41 drengur nafnið Aron í fyrra. Næstvinsælasta nafnið var Jökull sem 36 drengjum var gefið. Alexander var þriðja vinsælasta karlmannsnafnið.

Jökull tók stökk upp vinsældalistann en nafnið var það tuttugasta vinsælasta árið 2020. Nafnið Saga var sérstakur hástökkvari á meðal kvenmannsnafna, fór úr 80. sæti í það níunda.

Embla var þriðja vinsælasta mannanafnið í fyrra, jafnt Alexander, og það vinsælasta fyrir stúlkubörn. Þrjátíu og einni stúlku var gefið nafnið í fyrra. Næstvinsælasta kvennafnið var Emilía og þar á eftir kom Sara.

Tæpu 91 prósenti einstaklinga sem fæddust í fyrra var gefið annað eiginnafn. Langvinsælasta nafnið á meðal drengja var Þór en þar á eftir Freyr og Máni. Á meðal stúlkna var Rós vinsælasta en þar á eftir Björk og Ósk.

Þegar litið er til fyrstu eiginnafna allra núlifandi Íslendingar eru „hefðbundnari“ nöfn þar enn efst á blaði. Anna er algengasta mannanafnið en 6.175 manns heita því. Þar á eftir kemur Jón sem 5.652 heita. Guðrún, Sigurður og Guðmundur eru í þriðja til fimmta sæti.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×