Innlent

Ráðin fram­kvæmda­stjóri Lofts­lags­ráðs

Atli Ísleifsson skrifar
Þórunn Wolfram Pétursdóttir.
Þórunn Wolfram Pétursdóttir. Stjr

Þórunn Wolfram Pétursdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri Loftslagsráðs. Hún er starfandi sviðsstjóri hjá Landgræðslunni og hefur verið staðgengill landgræðslustjóra. Þórunn mun hefja störf hjá Loftslagsráði í byrjun næsta árs.

Í tilkynningu á vef stjórnarráðsins segir að Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, hafi ákveðið að efla starfsemi Loftslagsráðs með því að leggja til aukið fjármagn í fjárlagafrumvarpi 2023 til ráðsins. Jafnframt verði stofnað sérstakt opinbert félag um starfsemi þess.

„Þórunn Wolfram Pétursdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri og hefur hún störf hjá Loftslagsráði 1. janúar 2023. Hún hefur doktorsgráðu í umhverfisfræðum frá Landbúnaðarháskóla Íslands og er starfandi sviðsstjóri hjá Landgræðslunni og staðgengill Landgræðslustjóra. Þá gegndi Þórunn starfi aðstoðarmanns þáverandi umhverfis- og auðlindaráðherra árið 2017.

Loftslagsráð starfar á grundvelli laga um loftslagsmál og er skipað fulltrúum sveitarfélaga, launþega, neytenda, viðskipta- og atvinnulífs, bænda, háskólasamfélagsins, umhverfisverndarsamtaka og ungs fólks. Formaður og varaformaður, sem eru skipaðir af umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra án tilnefningar, eru þau Halldór Þorgeirsson plöntulífeðlisfræðingur og Brynhildur Davíðsdóttir prófessor í umhverfis- og auðlindafræði. Ráðið skal samkvæmt lögum vera sjálfstætt í störfum sínum og veita stjórnvöldum aðhald og faglega ráðgjöf,“ segir í tilkynningunni.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×