Innlent

Verða að láta duga að horfa á upp­tökuna hjá lög­reglu

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Landsréttur.
Landsréttur. Vísir/Vilhelm

Landsréttur hefur staðfest niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur þess efnis að lögregla þurfi ekki að afhenda manni, sem ákærður er fyrir líkamsárás, og lögmanni hans upptöku úr öryggismyndavél. Þeim stendur hins vegar til boða að skoða upptökurnar hjá lögreglu.

Maðurinn er ákærður fyrir líkamsárás sem átti sér stað á jóladag árið 2020. Er hann sakaður um að hafa hrint konu þannig að hún féll á vegg, þrýst henni upp að veggnum, rifið í hár hennar, sparkað í hana og hrint niður tröppur.

Við fyrirtöku málsins í héraðsdómi krafðist lögmaður mannsins þess að fá til skoðunar upptöku eftirlitsmyndavélar, sem er á meðal gagna málsins. Ákæruvaldið lagðist gegn beiðninni.

Vísað var til dómaframkvæmdar sem kveði á um að árum saman hafi ákærðir einstaklingar og verjendur þeirra þurft að sætta sig við að skoða þau gagn mála sem varðveitt eru á öðru formi en pappír á starfsstöð ákæruvaldsins.

Var manninum og verjanda hans boðið að koma á lögreglustöð til að skoða upptökurnar. Héraðsdómur hafnaði kröfunni. Úrskurðinum var vísað til Landsréttar.

Þar var vísað í að ákæruvaldið hafi boðið verjandanum að kynna sér upptökuna hjá lögreglu. Var úrskurður héraðsdóms því staðfestur.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×