Barcelona fagnaði Evrópu­deildar­sætinu með tapi á heima­velli

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Robert Lewandowski komst hvorki lönd né strönd gegn sínu gamla félagi í kvöld.
Robert Lewandowski komst hvorki lönd né strönd gegn sínu gamla félagi í kvöld. Maria Jose Segovia/Getty Images

Áður en flautað var til leiks á Nývangi í kvöld var ljóst að Börsungar gætu ekki komist í 16-liða úrslit Meistaradeildar Evrópu karla í fótbolta. Liðið hélt upp á áfangann með 0-3 tapi gegn Bayern München í kvöld.

Inter Milan fór illa með Viktoria Plzeň fyrr í kvöld sem gulltryggði Ítölunum sæti í 16-liða úrslitum keppninnar og sendi Börsunga niður í Evrópudeildina annað árið í röð. Ef Barcelona hefði nælt í stig í kvöld myndu Inter og Bayern mætast í úrslitaleik um efsta sæti riðilsins í lokaumferðinni en sigur Bæjara í kvöld tryggði toppsæti riðilsins svo lokaumferð hans er aðeins upp á stoltið.

Eftir aðeins tíu mínútur komust gestirnir yfir þegar Sadio Mané skoraði með góðu skoti niðri í markhornið vinstra megin eftir sendingu Serge Gnabry. Markið var skoðað nokkuð lengi þar sem talið var að um rangstöðu væri að ræða í aðdragandanum en svo reyndist ekki og markið stóð.

Stoðsendingavélin Gnabry var aftur að verki þegar hálftími var liðinn af leiknum. Þá gaf Gnabry á Eric Maxim Choupo-Moting sem skoraði með föstu skoti og staðan 2-0 Bæjurum í vil.

Serge Gnabry (til vinstri) átti magnaðan leik.EPA-EFE/ENRIC FONTCUBERTA

Undir lok fyrri hálfleiks virtist sem heimamenn væru að fá líflínu þegar Anthony Taylor, dómari leiksins, dæmdi vítaspyrnu en eftir að skoða atvikið sjálfur í skjánum á hliðarlínunni ákvað Taylor að draga dóminn til baka. Staðan því enn 2-0 þegar flautað var til loka fyrri hálfleiks.

Síðari hálfleikur var ekki gamall þegar Gnabry skoraði glæsilegt vinstri fótar mark sem var dæmt af vegna rangstöðu. Segja má að leikurinn hafi fjarað út hægt og rólega í síðari hálfleik en á endanum voru það gestirnir sem skoruðu hið fræga þriðja mark.

Það gerði Benjamin Pavard á fimmtu mínútu uppbótartíma eftir sendingu Gnabry og lokatölur 3-0 Bæjurum í vil. Um er að ræða sjötta sigur Bayern í röð á Barcelona.

Sigur Bayern þýðir að liðið er á toppi C-riðils með fullt hús stiga að loknum fimm umferðum. Barcelona er á sama tíma í 3. sæti með fjögur stig og ljóst að liðið er á leið í Evrópudeildina.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira