Erlent

Dæmdur fyrir að nauðga konu og skilja hana eftir í djúpri holu

Atli Ísleifsson skrifar
Taher Amini var ákærður fyrir nauðgun og tilraun til manndráps, en eftir að hafa ýtt konunni í holuna reyndi hann í að minnsta kosti tvígang að grýta hana áður en hann yfirgaf staðinn.
Taher Amini var ákærður fyrir nauðgun og tilraun til manndráps, en eftir að hafa ýtt konunni í holuna reyndi hann í að minnsta kosti tvígang að grýta hana áður en hann yfirgaf staðinn. Sænska lögreglan

Dómstóll í Svíþjóð hefur dæmt 41 árs karlmann, Taher Amini, í lífstíðarfangelsi og til brottvísunar fyrir að hafa nauðgað konu og ýtt henni ofan 24 metra djúpa í holu á námuvinnslusvæði eftir að hún hafði hafnað bónorði hans. Konan hafði legið fótbrotin í holunni í tvo sólarhringa þegar hún fannst.

Atvikið átti sér stað við námuna Långgruvan fyrir utan Norberg í Västmanland í Svíþjóð í apríl fyrr á þessu ári.

Maðurinn var ákærður fyrir nauðgun og tilraun til manndráps. Eftir að hafa ýtt konunni í holuna reyndi hann í að minnsta kosti tvígang að grýta hana áður en hann yfirgaf staðinn.

Tveimur sólarhringum síðar barst lögreglu og sjúkraliði tilkynning frá öðrum manni sem hafði verið með börnin sín á gangi í skóglendi fyrir utan Norberg. Hann hafði þá heyrt hjálparköll frá konunni.

Björgunarliði tókst að hífa konuna upp og var hún flutt með þyrlu á sjúkrahús. Hún var þá tvífótbrotin og hafði ofkælst. Konan sagði í skýrslutöku að Amini hafi viljað giftast sér til að fá dvalarleyfi í Svíþjóð.

Sænskir fjölmiðar segja að Amini eigi þrjú börn úr fyrra sambandi og hafði áður verið giftur. Áður en hann ýtti konunni ofan í holuna segir hún að á hann hafi sagt henni frá því að hann hafi drepið fyrrverandi eiginkonu sína. Fyrrverandi eiginkonu Amini er saknað.

Fyrir dómi neitaði maðurinn þó bæði að hafa nauðgað og ýtt konunni í holuna sem og að hafa banað fyrrverandi eiginkonu sinni.

Auk þess að vera dæmdur í lífstíðarfangelsi og til brottvísunar úr landi var manninum einnig gert að greiða konunni 545 þúsund sænskra króna í skaðabætur, um sjö milljónir íslenskra króna.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×