Erlent

Sunak, Johnson og Mordaunt virðast njóta mests stuðnings

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Mordaunt, Johnson og Sunak eru þeir kandídatar sem flestir hafa lýst yfir stuðningi við.
Mordaunt, Johnson og Sunak eru þeir kandídatar sem flestir hafa lýst yfir stuðningi við. epa

Rishi Sunak, Boris Johnson og Penny Mordaunt eru þeir kandídatar sem flestir þingmenn Íhaldsflokksins hafa lýst yfir stuðningi við til að verða næsti leiðtogi flokksins og þar með næsti forsætisráðherra.

Þeir sem freista þess að hreppa hnossið verða að tryggja sér stuðning að minnsta kosti 100 þingmanna yfir helgina. Þingmenn munu svo ganga til atkvæðagreiðslu á mánudag. Ef tveir eða mögulega þrír fá yfir 100 atkvæði, fá fullgildir flokksmenn að kjósa í netkosningu í næstu viku. Henni lýkur svo á föstudag.

Hér má lesa meira um ferlið.

Johnson er sagður eiga raunverulegan möguleika á endurkomu en hann er hins vegar ennþá gríðarlega óvinsæll meðal fjölda þingmanna. 

Forsætisráðherrann fyrrverandi ku vera fullviss um að hann sé maðurinn til að leiða Íhaldsflokkinn í næstu kosningum en aðrir hafa sínar efasemdir, ekki síst þar sem hann sætir enn rannsókn vegna ásakana um að hafa logið af þinginu.

Samkvæmt nýrri skoðanakönnun sem birtist í morgun hefur Verkamannaflokkurinn nú 39 prósenta forskot á Íhaldsflokkinn. Ef gengið væri til kosninga í dag myndu 53 prósent kjósa Verkamannaflokkinn en aðeins 14 prósent Íhaldsflokkinn. 

Um er að ræða verstu útkomu flokksins í sögu skoðanakannana á Bretlandseyjum.

Leiðtogar Verkamannaflokksins og Frjálslyndra demókrata hafa kallað eftir því að boðað verði til þingkosninga. Íhaldsflokkurinn sé hreinlega ekki stjórntækur en til viðbótar við forsætisráðherraskiptin hafa gríðarlegar hrókeringar átt sér stað á öðrum ráðherraembættum síðustu misseri.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×