Erlent

Herlög taka gildi á „innlimuðum“ svæðum í Úkraínu

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Vladimír Pútin hyggst grípa til herlaga en vafalítið er um að ræða viðbrögð við gagnsókn Úkraínumanna.
Vladimír Pútin hyggst grípa til herlaga en vafalítið er um að ræða viðbrögð við gagnsókn Úkraínumanna. AP/Grigory Sysoyev

Herlög taka gildi í dag í héruðunum fjórum í Úkraínu sem Rússar vilja meina að þeir hafi innlimað á dögunum. Frá þessu greindi Vladimir Pútín Rússlandsforseti þegar hann ávarpaði fund þjóðaröryggis Rússlands nú fyrir stundu.

Forsetinn sagði leppstjóra sína á svæðunum fá aukið vald til að framfylgja öryggismálunum á svæðunum en herlögin eru almennt talin munu fela í sér útgöngubann, bann við mótmælum og verkföllum, upplýsingatakmarkanir og fleira.

Héruðin fjögur eru Donetsk, Luhansk, Kherson og Zaporizhzhia.

Herlögin virðast vera viðbrögð við gagnsókn Úkraínumanna á hinum „innlimuðu“ svæðum en greint var frá því í morgun að fjölmiðlabanni hefði verið lýst yfir í suðurhluta landsins. Hafa menn leitt líkur að því að eitthvað stórt standi til, mögulega sókn að Kherson-borg, á næstu dögum.

Pútín greindi einnig frá því á fundinum að ferðatakmörkunum yrði komið á á átta svæðum í Rússlandi sem liggja að Úkraínu; Krasnodar, Belgorod, Bryansk, Voronezh, Kursk og Rostov, auk Krímskaga og Sevastopol.

Þá verður komið á fót sérstöku samræmingarráðuneyti til að samhæfa aðgerðir stofnana sem koma að átökunum í Úkraínu með einum eða öðrum hætti.

Fréttin verður uppfærð.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×