Innlent

Heiða Björg gefur ekki kost á sér á­fram

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Heiða Björg Hilmisdóttir er þakklát fyrir stuðninginn.
Heiða Björg Hilmisdóttir er þakklát fyrir stuðninginn. Vísir/Arnar

Heiða Björg Hilmisdóttir hefur tekið ákvörðun um að gefa ekki kost á sér til áframhaldandi starfa sem varaformaður Samfylkingarinnar. Hún hefur gegnt hlutverkinu í sex ár.

Heiða Björg greinir frá tíðindunum á Facebook og kveðst ætla að einbeita sér að formennsku í Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Hún var kosin til starfans um síðustu mánaðarmót.

„Þessu nýja mikilvæga hlutverki fylgir mikil ábyrgð og ég vill leggja mig alla fram um að standa undir því mikla trausti sem sveitarstjórnarfólk um allt land, úr öllum flokkum, hefur sýnt mér með kjöri mínu. Það skiptir miklu máli fyrir íslenskt samfélag að sveitarfélögin séu samtaka og nái árangri til að tyggja hér jöfn tækifæri og lífsgæði um allt land, tryggja samkeppnishæft Ísland,“ segir Heiða Björg.

Hún kveðst stolt af sínum störfum og mun halda áfram að starfa með fólki innan hreyfingarinnar.

„Ég er í forystusveit í Borgarstjórn Reykjavíkur, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga og fjölskyldukona og þeim hlutverkum ætla ég að forgangsraða á næstu misserum. Ég er þakklát fyrir stuðninginn og hvatningu til að halda áfram sem varaformaður. Takk fyrir mig,“ segir Heiða Björg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×