Umfjöllun og viðtöl: Kefla­vík - FH 2-3 | Ó­trú­leg endur­koma FH suður með sjó

Jón Már Ferro skrifar
FH vann frábæran sigur í Keflavík.
FH vann frábæran sigur í Keflavík. Vísir/Diego

FH vann 2–3 endurkomusigur á HS Orku vellinum í Keflavík í kaflaskiptum leik en Keflavík skoraði fyrstu tvö mörk leiksins.

Heimamenn leiddu 2–1 í hálfleik. Þeir voru með vindinn í bakið og áttu auðvelt með að komast ákjósanlegar stöður í kringum vítateig FH-inga.

Á 19. mínútu skoraði Dagur Ingi Valsson fyrir Keflavík með skalla eftir hornspyrnu Rúnars Þórs. Dagur Ingi stóð einn og óvaldaður á fjærsvæðinu í teig FH-inga. Skalli hans hafði viðkomu í Jóhanni Ægi á leið á markið.

Áfram héldu heimamenn að sækja. Á 32. mínútu bætti Adam Ægir Pálsson við öðru marki Keflavíkur eftir klaufaskap Atla Gunnars í marki FH. Patrik Johannesen komst inn í sendingu Atla, tók skot sem Atli varði en boltinn féll fyrir fætur Adams Ægis sem lagði boltann í markið.

Nokkrum mínútum síðar var brotið á Jóhanni Ægi, hægri bakverði FH, út við hliðarlínu hægra megin. Björn Daníel tók aukaspyrnuna og skrúfaði boltann inn á vítateig heimamanna á Guðmund Kristjánsson sem var einn og óvaldaður. Hann tók boltann viðstöðulaust á lofti og lagði boltann upp í vinkilinn.

Í seinni hálfleik léku gestirnir með vindinn í bakið og áttu auðvelt með að skapa sér hættuleg færi.

Það nýtti Oliver Heiðarsson sér á 55. mínútu. FH-ingar unnu boltann eftir klaufaskap í vörninni. Boltinn barst til Björns Daníels sem laumaði boltanum inn á teiginn á Oliver sem þrumaði boltanum í þaknetið af stuttu færi.

Örfáum mínútum síðar skoraði hinn ungi framherji FH sigurmarkið. Aftur eftir mistök heimamanna. Nú missti markmaður þeirra Sindri Kristinn boltann fyrir fætur Úlfs eftir langskot Kristins Freys.

Það sem eftir lifði leiks sköpuðu gestirnir sér nokkur færi sem þeir náðu ekki að nýta sér.

Af hverju vann FH?

Keflavík réð ekki við sóknarleik FH-inga. Sigurinn hefði getað verið stærri því FH-ingar sköpuðu nóg af færum í seinni hálfleik.

Það var ekki mikið undir fyrir Keflvíkinga. Aftur á móti var leikurinn mjög mikilvægur fyrir FH sem virtist hafa mun meiri áhuga á að vinna leikinn.

Hverjir stóðu upp úr?

Finnur Orri Margeirsson, sýndi mikla og mikilvæga baráttu inn á miðjunni. Hann hljóp mikið bæði varnarlega og sóknarlega.

Björn Daníel Sverrisson stjórnaði miðjuspili FH og lagði upp tvö mörk. Hann tók mikið til sín þegar FH þurftu að halda boltanum, sérstaklega þegar leið á leikinn.

Kristinn Freyr Sigurðsson var svipaður og Björn Daníel inni á miðjunni. Sýndi gæði sín sóknarlega. Bæði í opnum leik og í föstum leik atriðum.

Hvað gekk illa?

Báðum liðum gekk illa að spila á móti rokinu. FH-ingum tókst að nýta sér það þrisvar en Keflvíkingar bara tvisvar og því fór sem fór.

Hvað gerist næst?

Keflavík spilar 22. október í Breiðholtinu á móti Leikni.

FH fer í Úlfarsárdal og mætir þar Fram degi síðar.

„Ekkert hissa á þessu“

Sigurvin Ólafsson, þjálfari FH.Vísir/Diego

Sigurvin Ólafsson, þjálfari FH, var að vonum sáttur með sigur sinna manna.

„Þetta var mjög sætt, koma til baka úr 2 – 0 stöðu og við þessar aðstæður sem eru í deildinni. Þá var þetta mjög sætt. Ég er svo sem ekkert hissa á þessu því vindurinn var í bakið á okkur og þetta var jafn leikur. Við vorum með yfirhöndina þegar leið á.“

Sigurvin fannst sigurinn öruggur.

„Já í rauninni. Það getur allt gerst í fótbolta en markmiðið hjá okkur var að leikurinn myndi fara fram á þeirra vallarhelming í seinni hálfleik. Bæði út af vindinum og við myndum ýta þeim inn á það svæði. Þaðan myndu við síðan ná að búa til nóg af færum til að skora allavega tvö mörk. Það tókst og í raun áttum við að skora svona sex mörk.“

FH-ingar lentu í vandræðum í síðasta útileik á móti ÍBV. Þar spiluðu FH-ingar á móti vindi. Þeir lentu aftur í því í dag en tókust aðeins betur á við það.

„Þessi fyrri hálfleik var alls ekkert slæmur. Ef þú spáir í því hvernig liðin tækluðu vindinn þá gerðum við það klárlega betur heldur en Keflavík í þessum leik.“

 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira