Fótbolti

„Þakka vindinum fyrir það“

Jón Már Ferro skrifar
Guðmundur Kristjánsson, leikmaður FH.
Guðmundur Kristjánsson, leikmaður FH. Bára

Guðmundur Kristjánsson, varnarmaður FH, skoraði eitt mark í 2-3 endurkomu sigri FH gegn Keflavík á HS Orku vellinum.

FH-ingar eru í mikilli fallbaráttu og var því sigurinn mjög mikilvægur fyrir þá.

„Hann var mjög sætur og mjög mikilvægur eins og gefur að skilja. Þetta eru stigin sem við þurftum á að halda.“

Mark Guðmundar var ekki bara mikilvægt, heldur mjög fallegt.

„Á ég ekki að þakka vindinum fyrir það. Hann stoppaði vel í loftinu og ég sneiddi hann upp í skeytin. Óverjandi sem betur fer. Þetta var mikilvægt mark fyrir hálfleik. Það var sætt. Langt síðan ég skoraði síðast.“

Guðmundi fannst erfitt að spila í rokinu í Keflavík. Hann minntist á grínið sem FH-ingar settu á samfélagsmiðla fyrir leik þegar þeir töluðu um Keblakrika. Hafnfirðingar hafa ekki riðið feitum hesti á útivelli í sumar og gerðu því útivöll að heimavelli.

„Keblakrika? Það var mjög erfitt eins og sást. Boltinn stoppaði í loftinu, menn ætluðu að hreinsa og allt í einu er boltinn kominn á annan stað. Hrikalega erfitt og hlaupa á móti vindi svona mikið er drullu erfitt líka. Þannig þetta var barningur og við vissum það. Það er gaman að spila svona leiki sem er bara barátta. Ég elska það og finnst það skemmtilegt.“

Þrátt fyrir sigur FH-inga eru þeir enn í fallbaráttu. Guðmundi lýst vel á síðustu tvo leikina.

„Bara vel. Þetta lítur betur út núna en það gerði. Við höfum aðeins náð að gíra okkur upp núna í síðustu leikjum. Þannig við erum bara bjartsýnir fyrir næstu leiki. Það er ekkert gaman að vera í fallbaráttu, en það er gaman að vera spila að einhverju og vera ekki að spila leiki sem þýða ekki neitt eins og sum lið í deildinni.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×