Besta byrjun Arsenal á Englandi síðan 1903 staðfest eftir sigur í Leeds

Atli Arason skrifar
Bukayo Saka skoraði eina mark leiksins.
Bukayo Saka skoraði eina mark leiksins. Getty Images

Arsenal vann 0-1 útisigur á Leeds í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag. Arsenal þurfti að hafa mikið fyrir sigrinum en leikurinn stóð yfir lengur en vanalega vegna tæknilegra vandamála á Elland Road, heimavelli Leeds.

Leikurinn frestaðist um rúmar 40 mínútur eftir að rafmagnsleysi olli því að tæknibúnaður dómara virkaði ekki.

Bukayo Saka skoraði eina mark leiksins á 35. mínútu eftir stoðsendingu Martin Ødegaard. Patrick Bamford, leikmaður Leeds, kom af varamannabekk liðsins fyrir Rodrigo í hálfleik og Bamford fékk kjörið tækifæri til jafna leikinn þegar Leeds fékk vítaspyrnu á 64. mínútu leiksins.

Aaron Ramsdale, markvörður Arsenal, sá þó við Bamford og varði vítaspyrnu hans þægilega.

Þegar allt stefndi í sigur Arsenal þá fékk Leeds aðra vítaspyrnu á 94. mínútu eftir að Gabriel, leikmaður Arsenal, braut á Bamford innan vítateigs. Gabriel fékk rautt spjald að launum en eftir nánari skoðun í varsjánni var bæði vítaspyrnan og rauða spjaldið réttilega dregið til baka og Arsenal vann að lokum eins marks sigur. Sem betur fer fyrir Skytturnar, þá var tæknin í lagi.

Arsenal heldur þar með í toppsæti deildarinnar eftir bestu byrjun liðsins í enskri deildarkeppni frá árinu 1903 þegar liðið vann einnig 9 af fyrstu 10 leikjum sínum. Arsenal er með þriggja stiga forskot á Manchester City sem leikur nú við Liverpool. Leeds er á sama tíma í 15. sæti deildarinnar með níu stig.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira