Í fréttum Stöðvar 2 var Haganesvík heimsótt. Þar voru áður kaupfélag, sláturhús og frystihús, þaðan réru Fljótamenn til fiskjar, og þar bjuggu um fjörutíu manns þegar mest var í kringum 1940.

Með lagningu nýs vegar um sveitina fyrir hálfri öld hvarf Haganesvík úr alfaraleið, starfsemin fjaraði út og lauk að mestu þegar nýtt verslunarhús var opnað á Ketilási árið 1978. Húsin grotnuðu niður allt þar til eigendur lúxushótelsins Depla keyptu þar tvær fasteignir og hófu að endurvekja draugaþorpið.

„Við erum kannski frekar búin að varðveita söguna og reyna að skrifa okkar kafla í Haganesvíkinni,“ segir Haukur Bent Sigmarsson, framkvæmdastjóri Eleven Experience á Íslandi, sem á Depla.
Fyrrum verslunarhúsi Samvinnufélags Fljótamanna er búið að breyta í hljóðupptökuver og þegar inn er komið sést að ekkert er til sparað.

„Það þýðir ekkert hálfkák, hvorki í aðstöðunni á hótelinu eða hér. Þannig að ef það á að gera hlutina, þá eru þeir gerðir almennilega,“ segir Haukur.
Og milli þess sem tónlistarmenn vinna að listsköpun geta þeir skroppið í gufubað eða heita pottinn, farið á brimbretti, í sjósund eða róið á kajak.

Í gamla sláturhúsinu er svo búið að innrétta íþróttasal með körfuboltavelli og klifurvegg.
„Það er náttúrlega allra veðra von hérna. Og þá getum við verið með þennan möguleika að gera eitthvað inni, ef veðrið myndi ekki bjóða upp á útivist.“

Þegar spurt er hvernig hljóðver nýtist ferðaþjónustu segir Haukur að þar sé þegar búið að taka upp fjórar plötur.
„Þetta nýtist rekstrinum. Og núna erum við bara í því lúxusvandamáli að sökum þess hvað er mikið bókað á Deplum þá er bara ekki pláss fyrir að koma með tónlistarmenn. Þannig að erum búin að gera eitt íbúðarhúsnæði á Hraunum upp fyrir tónlistarfólk.“

En hvað er það eiginlega sem bandarískir fjárfestar sjá við Haganesvík?
„Það er náttúrlega bara umhverfið. Fjöllin, náttúran, kyrrðin. Öryggið. Snjórinn. Þetta er svo langt frá því að vera eitthvert Disneyland hérna. Það er allt hérna með sögu. Og bara mjög djúpa sögu,“ segir Haukur B. Sigmarsson.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: