Erlent

Að­gerðir lög­reglu sagðar hafa valdið mann­skæðum troðningnum

Kjartan Kjartansson skrifar
Karlmenn gráta fyrir utan Kanjuruhan-völlinn í Malang þar sem á annað hundrað manns fórust um síðustu helgi.
Karlmenn gráta fyrir utan Kanjuruhan-völlinn í Malang þar sem á annað hundrað manns fórust um síðustu helgi. AP/Dicky Bisinglasi

Táragas sem lögreglumenn létu rigna yfir áhorfendur á knattspyrnuleik í Malang í Indónesíu um helgina er talið kveikjan að miklum troðningi sem varð að minnsta kosti 130 manns að bana. Aðgerðir lögreglu eru sagðar hafa stangast á við innlendar og alþjóðlegar reglur.

Greining Washington Post, sem byggist meðal annars á myndefni frá troðningnum á Kanjuruhan-vellinum, vitnisburðum sjónarvotta og áliti sérfræðinga í stjórnun mannfjölda, bendir til þess að það hafi verið harkaleg viðbrögð lögreglu sem ollu uppþoti í suðurenda vallarins.

Eftir að hundruð áhorfenda hlupu inn á völlinn skutu lögreglumenn að minnsta kosti fjörutíu táragashylkjum inn í mannfjöldann á um tíu mínútna tímabili. Áhorfendur streymdu þá að útgöngum en hundruð tróðust undir í ringulreiðinni sem skapaðist. Fólk ýmist tróðst undir þvögunni eða kramdist upp við veggi og málmhlið vegna þess að sumir útgangarnir voru lokaðir.

Notkun lögreglunnar á táragasi er sögð hafa verið í trássi við verklagsreglur hennar sjálfrar og alþjóðlegra öryggistilmæla fyrir knattspyrnuleiki.

Forseti Indónesíu hefur skipað fyrir um rannsókn á harmleiknum. Hann hefur staðfest frásagnir vitna um að áhorfendur hafi sums staðar komið að læstum hliðum sem hafi aukið enn á glundroðann. Yfirmaður lögreglunnar í Malang og níu undirmenns hans voru reknir vegna aðkomu sinnar að málinu á miðvikudag og átján lögreglumenn eru til rannsóknar.

AP-fréttastofan segir að þrír lögreglumenn og þrír óbreyttir borgarar verði ákærðir vegna dauða áhorfendanna. Á meðal þeirra eru yfirmaður indónesísku knattspyrnudeildarinnar og öryggisstjóri vallarins.

Á meðal þess 131 sem stjórnvöld hafa staðfest að hafi látist voru fjörutíu börn. Mannréttindasamtök telja að tala látinna gæti náð tvö hundruð þegar uppi er staðið.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×