Erlent

Ian líklega mannskæðasti fellibylur Flórída frá 1935

Samúel Karl Ólason skrifar
Enn er verið að leita í rústum húsa í Flórída.
Enn er verið að leita í rústum húsa í Flórída. AP/Rebecca Blackwell

Fellibylurinn Ian er líklega sá mannskæðasti sem gengið hefur yfir Flórída frá árinu 1935. Fjöldi dauðsfalla er enn á reiki og tala miðlar vestanhafs um að allt að 120 dauðsföll vegna fellibylsins hafi verið staðfest. Enn er verið að leita í rústum húsa.

Rúmlega helmingur þeirra sem dó er sagður hafa drukknað og flestir þeirra voru aldraðir.

Fólkið drukknaði að mestu vegna sjávarflóða sem fylgdu Ian. Í frétt Washington Post segir að öldurnar hafi náð allt að 5,5 metra hæð og þær hafi rifið niður heilu húsin.

Lík einnar konu fannst flækt í víra undir rústum húss hennar. Þá ræddi blaðamaður WP við nokkrar konur sem voru saman í fríi. Þær héldu til í húsi sem þær höfðu leigt og þurftu að flýja upp á efri hæð þess vegna sjávarflóða. Þar voru þær upp í rúmi en sjórinn náði að endingu upp á efri hæðina og flaut rúmið upp undir lofti hússins áður en það hrundi. Við það fékk ein kvennanna fjögurra nagla í hálsinn og dó.

Þó vika sé liðin frá því Ian gekk á land í Flórída er tjón enn að koma í ljós og sérstaklega í dreifðari byggðum Flórída eins og á eyjum.

Árið 1925 dóu um 2.500 manns vegna fellibyls og er hann sá mannskæðasti í sögu Flórída.

Hér að neðan má sjá langt myndband frá héraðsmiðlinum NBC2 News sem tekið var úr þyrlu yfir bænum Fort Myers í Flórída. Ian fór verulega illa með þann bæ.


Tengdar fréttir

Felli­bylurinn gæti reynst trygginga­fé­lögum Flórída dýr

Meira en 80 manns eru sögð látin eftir að fellibylurinn Ian gekk yfir Flórída og Norður- og Suður-Karólínu. Búist er við því að viðgerðir og uppbygging ásamt aðstoð vegna fellibylsins muni kosta tugi milljarða Bandaríkjadala. Þar að auki muni fellibylurinn kosta tryggingafélögin augun úr.

Tugir sagðir látnir eftir að Ian gekk yfir Flórída

Björgunarstörf er enn yfirstandandi í Flórída eftir að fellibylurinn Ian olli þar gífurlegu tjóni og mannskaða. Vitað er til þess að tugir hafi dáið vegna fellibylsins og þar af flestir í Flórída en enn er verið að leita í rústunum sem Ian skildi eftir sig.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×