Fótbolti

Myndir af Zlatan með Berlusconi vekja spurningar

Sindri Sverrisson skrifar
Zlatan Ibrahimovic birti þessa mynd af sér með Silvio Berlusconi.
Zlatan Ibrahimovic birti þessa mynd af sér með Silvio Berlusconi. @iamzlatanibrahimovic

Sænska knattspyrnugoðið Zlatan Ibrahimovic birti í gær af sér mynd á Instagram með ítalska stjórnmálamanninum Silvio Berlusconi sem vakið hefur upp spurningar.

Zlatan, sem er 41 árs, er í endurhæfingu eftir hnéaðgerð og vonast til að geta byrjað að spila fótbolta að nýju eftir áramót. Síðasta sumar framlengdi hann samning sinn við Ítalíumeistara AC Milan og gildir samningurinn fram á næsta sumar.

Þeir Berlusconi þekkjast vel enda var Berlusconi eigandi AC Milan á árunum 1986 til 2017, en hann var auk þess forsætisráðherra drjúgan hluta þess tíma. Berlusconi var í lok síðasta mánaðar kosinn aftur á þing eftir áratugs fjarveru.

Árið 2018 keypti Berlusconi félagið Monza, sem þá spilaði í C-deild, og varði miklu fé til að koma félaginu í efstu deild sem tókst á síðustu leiktíð. Það er því ekki skrýtið þó að sparkspekingar velti því nú fyrir sér hvort að Zlatan verði leikmaður Monza innan tíðar.

„Það er ekki hægt að stroka út söguna… og það er ekki búið að skrifa framtíðina,“ skrifaði Zlatan með myndinni af sér og hinum 86 ára gamla Berlusconi á Instagram.

„Hvað er Ibra að gera með mér? Það er von á framhaldi,“ skrifaði Berlusconi en ekki hefur komið nánar fram hvað þeir eru með á prjónunum.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.