Erlent

Telja rað­morðingja vera á ferðinni í Kali­forníu

Bjarki Sigurðsson skrifar
Til vinstri er mynd af svartklædda manninum sem talinn er bera ábyrgð á morðunum.
Til vinstri er mynd af svartklædda manninum sem talinn er bera ábyrgð á morðunum. Lögreglan í Stockton/Getty

Lögreglan í borginni Stockton í Kaliforníu-ríki í Bandaríkjunum telur að raðmorðingi gæti verið á ferðinni í borginnu. Fimm manns hafa verið skotnir til bana síðustu þrjá mánuði en lögreglan telur að öll málin tengist.

Borgin Stockton er í miðju Kaliforníu-ríki, rétt austan við San Francisco og sunnan við Sacramento. 320 þúsund manns búa í borginni, aðeins minna en á Íslandi.

Fyrsta morðið var framið þann 8. júlí síðastliðinn en maður í svörtum fötum með svarta derhúfu er þá talinn hafa skotið annan mann. Fjögur önnur svipuð morð hafa verið framin síðan þá, nú síðast á þriðjudaginn þegar 54 ára gamall maður var skotinn til bana. Engin tengsl virðast vera milli mannanna fimm.

Ekkert af morðunum hefur náðst á öryggismyndvélum en í sumum málanna hefur sést til mannsins í svörtu fötunum ganga í burtu frá vettvangi. Lögreglan segist ekki vera búin að staðfesta hvort sama byssan hafi verið notuð í öllum málunum.

Þá hefur enginn þeirra myrtu verið barinn eða rotaður áður en þeir voru skotnir. Þeir eiga það allir sameiginlegt að hafa verið að ganga á dimmum svæðum að kvöldi til eða að morgni til og því óttast margir íbúar borgarinnar það að vera úti of seint.

Lögreglan hefur birt óskýra mynd af svartklædda manninum og lofar þeim sem veitt getur upplýsingar sem leiða til handtöku hans 85 þúsund dollara, rúmar tólf milljónir króna.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.