Erlent

Skutu eldflaug í átt að Japan

Bjarki Sigurðsson skrifar
Hér má sjá ferðalag eldflaugarinnar áður en hún lenti í Kyrrahafinu.
Hér má sjá ferðalag eldflaugarinnar áður en hún lenti í Kyrrahafinu. EPA/Kimimasa Mayama

Norður-Kóreumenn skutu í gærkvöldi eldflaug sem flaug yfir Japan. Íbúar Japan fengu skilaboð um að koma sér í skjól vegna eldflaugarinnar en að lokum lenti flaugin í Kyrrahafinu. Talið er að Norður-Kóreumenn hafi með þessu viljað fanga athygli Japana og Bandaríkjamanna.

Íbúar í norðurhluta Japan vöknuðu í nótt við sírenur og smáskilaboð sem í stóð: „Norður-Kórea virðist hafa skotið eldflaug. Vinsamlegast farið inn í byggingar eða í neðanjarðarbyrgi“. Flaugin lenti þó ekki í Japan en fólk var þó varað við að brot úr henni gætu hrapað á jörðina.

Flaugin flaug um 4.500 kílómetra leið áður en hún hrapaði í Kyrrahafið. Flaugin flaug nógu langt til að geta lent á eyjunni Gvam sem tilheyrir Bandaríkjunum ef hún hefði tekið aðra stefnu.

Forsætisráðherra Japan, Fumio Kishida, kallaði atvikið „ofbeldisfulla hegðun“ og varnarmálaráðherrann Yasakazu Hamada sagði að Japanir myndu ekki útiloka að svara fyrir sig. Þá hefur talsmaður bandaríska öryggismálaráðsins sagt ákvörðun Norður-Kóreumanna vera hættulega og kærulausa.

Þetta var í fyrsta sinn síðan árið 2017 sem norður-kóreskar eldflaugar fljúga yfir Japan. Talið er að stjórnvöld í Norður-Kóreu séu ekki sátt með samvinnu Japan, Bandaríkjanna og Suður-Kóreu en þjóðirnar þrjár hafa í sameiningu unnið að því að styrkja bandalag sitt vegna ástandsins í Norður-Kóreu.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×