Erlent

Skellir skuldinni á Bandaríkin og Ísrael

Kjartan Kjartansson skrifar
Ali Khamenei, æðsti leiðtogi Írans, hafði ekki tjáð sig um mótmæli undanfarinna vikna fyrr en í dag.
Ali Khamenei, æðsti leiðtogi Írans, hafði ekki tjáð sig um mótmæli undanfarinna vikna fyrr en í dag. AP/skrifstofa æðsta leiðtoga Írans

Æjatolla Khamenei, æðsti leiðtogi Írans, kenndi Bandaríkjunum og Ísrael um mótmæli á götum landsins í fyrstu opinberu ummælum sínum um óróann í dag. Mótmælin brutust út eftir að ung kona lést í haldi siðgæðislögreglunnar.

Mannréttindasamtök áætla að á annað hundrað manns hafi látist í mótmælum víða um Íran í kjölfar þess að Mahsa Amini, 22 ára gömul kona, lést í haldi siðgæðislögreglunnar eftir að útsendarar hennar stöðvuðu hana fyrir að fylgja ekki ströngum reglum um slæðunotkun kvenna 13. september.

Khamenei tjáði sig í fyrsta skipti um mótmælin í dag. Kallaði hann þau „óeirðir“ og sakaði erkióvini Írans og bandamenn þeirra um að „hanna“ þau, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC. Hvatti leiðtoginn lögreglu til að búa sig undir frekari mótmæli.

Konur hafa verið fremstar í flokki í mótmælunum. Margar þeirra hafa tekið af sér höfuðslæður eða brennt þær og kyrjað slagorð um „dauða einræðisherrans“ Khamenei. Mótmælin eru sögð ein mesta ógn við klerkastjórnina í fleiri ár.

Í ræðu við útskrift lögreglu- og hermanna sagði æðsti leiðtoginn að dauði Amini hefði „brotið hjörtu okkar“.

„En það sem er ekki eðlilegt er að sumt fólk hefur, án sannana eða rannsóknar, gert göturnar hættulegar, brennt Kóraninn, fjarlægt höfuðslæður af huldum konum og kveikt í moskum og bílum,“ sagði Khamenei.

Bandaríkin og Ísrael stæðu að uppþotunum vegna þess að ríkin þyldu ekki hversu sterkt Íran væri að verða á öllum sviðum.


Tengdar fréttir

Skotið á stúdenta og setið um háskóla

Íranskar óeirðasveitir hafa setið um háskólann Sharif í Tehran, höfuðborg Írans og skotið þar á háskólanema. Ekkert lát er á kröftugum mótmælum sem hafa sprottið á götum borga í Íran, síðan 22 ára gömul kona lést í haldi lögreglu fyrir að hafa höfuðklút sinn ekki nægilega þéttan á höfði sínu.

Siðgæðislögreglan sögð horfin af strætum og torgum

Ekkert hefur sést til fulltrúa siðgæðislögreglu sem á að fylgjast með klæðaburði kvenna á strætum Teheran í Íran undanfarna daga. Raddir um að slaka ætti á ströngum reglum um klæðaburð kvenna hafa orðið háværari eftir dauða ungrar konu í haldi siðgæðislögreglunnar fyrr í þessum mánuði.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×