Erlent

Konungurinn heldur sig heima eftir ráð­leggingar for­sætis­ráð­herrans

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Konungurin verður ekki á ráðstefnunni líkt og til stóð.
Konungurin verður ekki á ráðstefnunni líkt og til stóð. Getty/Chris Jackson

Karl Bretlandskonungur mun ekki sækja loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, COP27, sem fram fer í Egyptalandi í næsta mánuði. Ástæðan er sú að forsætisráðherra Bretlands ráðlagði honum að fara ekki.

Breska ríkisútvarpið hefur eftir talsmönnum Buckingham-hallar að Liz Truss forsætisráðherra og konungurinn hefðu komist að samkomulagi um að hann myndi ekki sækja ráðstefnuna. Áður hafði staðið til að konungurinn yrði viðstaddur og myndi halda þar ræðu.

Ástæða þess að talsmenn konungsins töldu sig þurfa að greina frá þessu er frétt í Sunday Times, þar sem sagt var að Truss hefði hreinlega skipað konunginum að halda sig heima.

„Í mesta vinskap og virðingu var komist að samkomulagi um að konungurinn myndi ekki sækja ráðstefnuna,“ segir í yfirlýsingunni en þar kemur fram að konungurinn hafi sérstaklega óskað eftir ráðleggingum Truss um hvort hann ætti að fara eða ekki.

Þó virðast ekki allir á eitt sáttir með niðurstöðuna. Til marks um það má nefna þingmann breska íhaldsflokksin, Tobias Ellwood, sem sagðist í færslu á Twitter vona að „almenn skynsemi myndi hafa yfirhöndina,“ og að konunginum yrði leyft að fara til Egyptalands.

Hann sagði jafnframt að konungurinn væri maður sem tekið væri mark á í alþjóðlegri umræðu um loftslagsbreytingar og sagði komu hans á ráðstefnuna geta ljáð bresku sendinefndinni aukna vigt.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×