Innlent

Hrýs hugur við að skólahverfið taki stakkaskiptum

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Íbúar í Laugardalnum hafa sterkar skoðanir á skólamálum í hverfinu. Þeim hrýs hugur við tilhugsunina um nýjan unglingaskóla og vilja frekar byggja við þá þrjá skóla sem fyrir eru í hverfinu. Ljósmyndin tengist efni fréttarinnar ekki beint.
Íbúar í Laugardalnum hafa sterkar skoðanir á skólamálum í hverfinu. Þeim hrýs hugur við tilhugsunina um nýjan unglingaskóla og vilja frekar byggja við þá þrjá skóla sem fyrir eru í hverfinu. Ljósmyndin tengist efni fréttarinnar ekki beint. Vísir/Vilhelm

Á mánudag verður tekin ákvörðun um framtíðarskipulag skólahverfisins í Laugardal. Íbúum hverfisins er mikið niðri fyrir og hafa sett af stað undirskriftasöfnun þar sem þess er krafist að borgaryfirvöld hlusti á raddir þeirra og geri ekki róttækar breytingar á fyrirkomulagi skólamála og tvístri nemendahópnum með nýjum unglingaskóla.

Valið stendur á milli þriggja sviðsmynda. Í þeirri fyrstu felst að skólarnir þrír, Laugalækjarskóli, Langholtsskóli og Laugarnesskóli, haldi sér í núverandi mynd og byggt verði við þá alla til að mæta auknum nemendafjölda í skólahverfinu.

Önnur sviðsmynd felur í sér að færa tvo elstu árganga Laugarnesskóla, það er að segja fimmta og sjötta bekk, yfir í Laugalækjarskóla og að byggt verði við hann og Langholtsskóla.

Í sviðsmynd þrjú felst að opnaður verði nýr unglingaskóli í hverfinu fyrir alla unglinga úr skólunum þremur.

Hér má lesa skýrslu um framtíðarskipan skólamála í hverfinu.

Mikil andstaða er á meðal íbúa í Laugardal við síðastnefnda valkostinn. Björn Kristjánsson er á meðal þeirra sem óttast umrót sem felst í nýjum unglingaskóla.

„Við erum ekki bara að tala um að byggja nýjan skóla heldur erum við að tala um gjörbreytt umhverfi í skólamálum í öllu hverfinu. Það er nú kannski það sem okkur hrýs hugur við að fara í svona róttækar og stórtækar breytingar þegar við erum með þrjá skóla í hverfinu sem ríkir rosalega mikil ánægja með.“

Íbúar vilji ekki tvístra nemendahópnum.

„Vestan megin í Laugardalnum erum við með eitt skólahverfi sem yrði þá sundrað í tvö hverfi og myndi tvístra hópnum og öðru megin í hverfinu væri kannski líka aðeins meiri félagsleg einsleitni. Það er ekkert endilega hollt eða gott fyrir skóla að vera með of einsleitan nemendahóp þannig að við höfum líka áhyggjur af því.“

Á sjöunda hundrað hafa ritað nafn sitt við undirskriftasöfnun þar sem lýst er yfir stuðningi við fyrstu sviðsmyndina.

„Ég vil bara segja borginni að hlusta. Það er alveg bersýnilegt hvað það er sem fólkið í hverfinu vill og það er alveg greinilegt hvað starfsfólk skólanna vill. Það má ekki gleyma því heldur að ef þú ætlar að brjóta upp svona einingar eins og skólar eru þá ertu líka að tefla svolítið djarft með mannauð skólanna, menningu og þau verðmæti sem í því felast.“


Tengdar fréttirAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×