Íslenski boltinn

Alfreð rekinn frá Grindavík

Sindri Sverrisson skrifar
Alfreð Elías Jóhannsson skrifaði undir samning til þriggja ára við knattspyrnudeild Grindavíkur í fyrra.
Alfreð Elías Jóhannsson skrifaði undir samning til þriggja ára við knattspyrnudeild Grindavíkur í fyrra. vísir/hulda margrét

Knattspyrnudeild Grindavíkur hefur hafið leit að nýjum þjálfara karlaliðs félagsins eftir að hafa ákveðið að ljúka samstarfinu við Alfreð Elías Jóhannsson.

Alfreð var ráðinn til starfa hjá Grindavík fyrir ári síðan, eftir að hafa þar áður stýrt kvennaliði Selfoss og meðal annars unnið bikarmeistaratitil, og skrifaði hann undir samning til þriggja ára.

Undir stjórn Alfreðs endaði Grindavík í 6. sæti Lengjudeildarinnar í sumar með 30 stig, eða 16 stigum á eftir HK og 21 stigi á eftir Fylki, liðunum sem komust upp í Bestu deildina.

„Við viljum þakka Alfreð fyrir hans störf hjá Grindavík í sumar og óskum honum velfarnaðar í þeim verkefnum sem hann tekur sér fyrir hendur,“ segir Haukur Guðberg Einarsson, formaður knattspyrnudeildar Grindavíkur, á vef félagsins.

Grindvíkingar höfðu áður tilkynnt um það í vikunni að hinn 26 ára gamli Anton Ingi Rúnarsson væri tekinn við þjálfun kvennaliðs félagsins, af Jóni Ólafi Daníelssyni sem stýrði liðinu síðustu tvö ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×