Erlent

Fjöldi látinna í Flórída á reiki eftir fellibylinn Ian

Fanndís Birna Logadóttir skrifar
Staðan eftir fellibylinn var einna verst í Fort Meyers í Flórída. 
Staðan eftir fellibylinn var einna verst í Fort Meyers í Flórída.  AP/Steve Helber

Fellibylurinn Ian sem gekk á land í Flórída á miðvikudag stefnir nú á Suður-Karólínu en fjölmargir íbúar flúðu úr stærstu borg ríkisins, Charleston, í gær. Ríkisstjóri Flórída segir ljóst að fellibylurinn, sem er einn sá stærsti í sögu Bandaríkjanna, hafi verið mannskæður en verið er að staðfesta fjölda látinna. 

Fellibyljamiðstöð Bandaríkjanna varaði í morgun við lífshættulegu sjávarflóði við strendur Suður-Karólínu og nærliggjandi ríkja en dregið hefur úr styrk fellibylsins. Vindhraði er þó áfram mikill, um 140 kílómetrar á klukkustund eða tæplega 39 metrar á sekúndu.

Fellibylurinn gekk yfir Flórída í gær og voru þúsundir íbúa innlyksa á heimilum sínum á en samkvæmt AP hefur verið staðfest að í hið minnsta fjórir hefðu látist í ríkinu, þó líklega séu þeir mun fleiri.

Aðrir fréttamiðlar greina frá því að mun fleiri hefðu látist en CNN grenir til að mynda frá því að fjöldinn væri kominn upp í nítján. Áður höfðu þrír látist þegar Ian fór yfir Kúbu fyrr í vikunni.

Joe Biden Bandaríkjaforseti sagði í ávarpi í gær að bandaríska þjóðin væri í sárum. Óttast væri að Ian myndi reynast mannskæðasti fellibylur í sögu Flórída.

Þá er ljóst að tjónið er gríðarlegt en fellibylurinn er einn sá stærsti í sögu Bandaríkjanna.

Ron DeSantis, ríkisstjóri Flórída, sagði tjónið hvað mest við Fort Myers Beach þar sem fjöldi heimila hafði gjöreyðilagst en að hans sögn var aðkoman ólýsanleg. Í einhverjum tilfellum hafi aðeins steypukápurnar verið eftir. Þá voru einhver tjón á samgöngum en hluti Sanibel brúarinnar féll til að mynda í sjóinn og milljónir manna voru án rafmagns.

Ríkisstjórinn sagði ljóst að fellibylurinn hafi verið mannskæður en að það þyrfti að fara eftir ákveðnu ferli til að staðfesta fjölda látinna. Umfangsmikið björgunarstarf stendur nú yfir.


Tengdar fréttir

Ian gæti orðið sá mann­skæðasti í sögu Flórída

Fellibylurinn Ian, sem gekk á land í Flórída í Bandaríkjunum í gær, hefur skilið eftir sig slóð eyðileggingar og óttast er að hann sé mannskæðasti fellibylur í sögu Flórída. Íbúðarhús eru víða gjörónýt, þak fauk af spítala, vegir skemmdust og brýr hrundu. 

Tvær milljónir án rafmagns og fólk innlyksa eftir Ian

Fjöldi fólks er innlyksa í húsum sínum vegna flóða og tvær milljónir manna eru án rafmagns á suðvestanverðum Flórídaskaga í Bandaríkjunum eftir að fellibylurinn Ian gekk þar yfir í nótt. Fellibylurinn er einn sá öflugasti sem gengið hefur á land í Bandaríkjunum.

Ian muni valda gríðarlegri eyðileggingu í Flórída

Fellibylurinn Ian hefur hefur valdið gríðarlegum flóðum á vesturströnd Flórída síðan hann gekk á land í kvöld, klukkan sjö að íslenskum tíma. Ríkisstjóri segir viðbúið að fellibylurinn muni skilja eftir sig gríðarlegar rústir. Bylurinn hefur þegar valdið tveimur dauðsföllum á Kúbu og rafmagnsleysi um alla eyjuna. Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×