Fótbolti

Yfirmenn Nagelsmanns vilja að hann hætti að líta á leiki sem tískusýningu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Julian Nagelsmann fer ekki hefðbundnar leiðir í klæðaburði á hliðarlínunni.
Julian Nagelsmann fer ekki hefðbundnar leiðir í klæðaburði á hliðarlínunni. getty/Geert van Erven

Hæstráðendur hjá Bayern München hafa ekki bara áhyggjur af gengi liðsins heldur einnig hvernig knattspyrnustjórinn Julian Nagelsmann kemur fyrir.

Bayern er án sigurs í síðustu fjórum leikjum sínum í þýsku úrvalsdeildinni og er í 5. sæti hennar. Liðinu hefur gengið illa að skora að undanförnu og það virðist sakna pólska framherjans Roberts Lewandowski sem fór til Barcelona í sumar.

Eins og fram kemur í úttekt Daily Mail hafa æðstu prestar hjá Bayern áhyggjur af ýmsu er tengist liðinu, meðal annars þjálfaranum. Þeim þykir Nagelsmann nefnilega reyna full mikið að vera svalur.

Nagelsmann fer aðrar leiðir en flestir stjórar og leyfir sér að klæðast öðru en jakkafötum eða æfingafötum á hliðarlínunni. Hæstráðendur Bayern vilja að Nagelsmann hætti að líta á leiki sem tækifæri til að sýna flottu fötin sín, jafnvel þótt hann klæðist jafnan fötum frá adidas og Hugo Boss sem eru bæði styrktaraðilar Bayern.

Þá þykir yfirmönnum Nagelsmanns hjá Bayern hann setja á svið óþarfa leikþátt með því að mæta á æfingar annað hvort á mótorhjóli eða hjólabretti.

Þrátt fyrir þetta, og að Thomas Tuchel sé á lausu eftir brottreksturinn frá Chelsea, ku starf Nagelsmanns hjá Bayern ekki vera í hættu.

Næsti leikur Bayern er gegn Bayer Leverkusen í kvöld.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.