Fótbolti

Conte segir ekkert til í orðrómi um endurkomu hans til Juventus

Hjörvar Ólafsson skrifar
Antonio Conte á blaðamannafundi í dag. 
Antonio Conte á blaðamannafundi í dag.  Vísir/Getty

Antonio Conte, þjálfari karlaliðs Tottenham Hotpur í fóbolta, segir orðróm þess efnis að hann sé að hætta hjá félaginu til þess að taka við Juventus að nýju óvirðingu við hann og kollega hans hjá Tórínóliðinu.

Ítalskir fjölmiðlar greindu frá því nýverið að Conte væri opinn fyrir því að taka við stjórnartaumunum hjá Juventus fari svo að Massimiliano Allegri fái sparkið. 

Juventus hefur einungis haft betur í tveimur af fyrstu sjö deildarleikjum sínum í ítölsku efstu deildinni á nýhafinn leiktíð. Talið er að forráðamenn Juventus vilji að Conte taki við Juventus annað hvort innan tíðar eða næsta sumar þegar samningur hans við Tottenham Hotspur rennur út. 

„Það er ótrúlegt að lesa þetta og að skrifa svona er bæði vanvirðing við Allegri sem er enn við stýrið hjá Juventus og mig sem er að vinna að heilindum fyrir Tottenham," sagði Conte sem tók við Lundúnarfélaginu í nóvember á síðasta ári. 

„Ég hef margoft sagt það að ég sé hæstánægður hjá Tottenham og á í góðu sambandi við yfirmenn mína. Við eigum nánast allt keppnistímabilið eftir og ég hef hvorki tíma né áhuga á því að ræða framtíð mína á þessum tímapunkti," sagði Ítalinn enn fremur. 

Næsti leikur Tottenham Hotspur er nágrannaslagur við Arsenal í ensku úrvalsdeildinni í hádeginu á laugardaginn kemur. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×