Fótbolti

Yfirvöld í Katar skylda ríkisborgara til vinnu í kringum HM

Valur Páll Eiríksson skrifar
Katarska lögreglan hefur undirbúið sig fyrir mótið í Tyrklandi. Þessi mynd er af einni slíkri æfingu.
Katarska lögreglan hefur undirbúið sig fyrir mótið í Tyrklandi. Þessi mynd er af einni slíkri æfingu. Halil Fidan/Anadolu Agency via Getty Images

Yfirvöldum í Katar færist mikið í fang að halda utan um eins stóran viðburð og heimsmeistaramótið í fótbolta sem fer fram í smáríkinu í nóvember og desember. Borgarar ríkisins þurfa að sinna þegnskyldu í kringum mótið.

Katar hefur skyldað katarska borgara til allskyns verkefni tengd heimsmeistaramótinu, þá helst sem snúa að öryggisgæslu á mótinu. Einhverjir verða skikkaðir til að sinna þegnskyldu sinni á meðan aðrir sinna herskyldu.

Um er að ræða hundruði katarskra ríkisborgara, þar á meðal diplómata erlendis sem hafa verið kallaðir heim, til að sinna öryggisgæslu í kringum vellina á HM.

Margir þeirra sem hafa verið skyldaðir til vinnu fyrir ríkið myndu undir eðlilegum kringumstæðum geta komist undan slíkri skyldu vegna reglna um vinnu sem þykir nauðsynleg samfélaginu. Ákvörðun katarskra yfirvalda undirstrikar því skipulagsvandræðin sem fylgja því að smátt ríki haldi einn stærsta íþróttaviðburð heims.

Katörsk yfirvöld hafa þegar hafið þjálfun fólksins sem snýr meðal annars að yfirsjón með röðum í kringum vellina og líkamsleitum sem miða að því að finna áfengi, eiturlyf eða vopn á áhorfendum.

2,8 milljónir búa í Katar, en þar af eru aðeins um 380 þúsund ríkisborgarar. Aðrir eru farandverkamenn, flestir frá Indlandi, Bangladesh og öðrum Asíuríkjum. Búist er við um 1,2 milljónum ferðamanna til landsins í kringum heimsmeistaramótið en Katar hefur þegar samið við Tyrkland um að útvega 3000 sérhæfða óeirðalögreglumenn.


Tengdar fréttir

Danir spila í mótmælatreyjum á HM

Danski íþróttavöruframleiðandinn Hummel segir að með hönnun á nýju HM-treyju danska landsliðsins í fótbolta sé ætlunin að mótmæla Katar og mannréttindabrotum þar í landi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×