Erlent

Ian búinn að ná landi á Kúbu

Samúel Karl Ólason skrifar
Sjómenn vörðu gærdeginum í að ná bátum sínum á þurrt.
Sjómenn vörðu gærdeginum í að ná bátum sínum á þurrt. AP/Milexsy Duran

Fellibylurinn Ian hefur náð landi á Kúbu en yfirvöld þar hafa flutt um fimmtíu þúsund manns úr vegi fellibyljarins. Ian er þriðja stigs fellibylur og óttast Bandaríkjamenn að hann muni ná fjórða stiginu og ná landi á vesturströnd Flórída seinna í vikunni.

Sérfræðingar óttast að Ian muni hækka sjávarmál við Kúbu um allt að 4,3 metra, sem gæti valdið miklum flóðum. Þá fylgir mikil rigning fellibylnum. AP fréttaveitan segir frá því að sjómenn hafi dregið báta sína á þurrt og á landi hafi fólk gengið úr skugga um að niðurföll væru hrein.

Enn sem komið er hafa litlar fregnir borist af fellibylnum á Kúbu. Þegar þetta er skrifað er klukkan þar rétt rúmlega sex að morgni.

Hér má sjá myndband af Iansem tekið var upp á myndavélar sem eru utan á Alþjóðlegu geimstöðinni.

Veðurstofa Bandaríkjanna segir líf í hættu á Kúbu vegna vinda, skyndiflóða og mögulegra aurskriða í dag. Það sama megi segja um sjávarflóð við stendur Flórída. Flóðin gætu reynst lífshættuleg og þá sérstaklega í Fort Myers og Tampa Bay.

Íbúar á Kúbu sögðu blaðamönnum AP að þeir væru óttaslegnir vegna Ians og þá sérstaklega vegna sjávarflóða sem eiga að fylgja honum.

Vindhraði þar sem fellibylurinn náði landi er talinn vera um 57 metrar á sekúndu.


Tengdar fréttir

Ian sækir í sig veðrið á leið til Kúbu

Hitabeltisstormurinn Ian stefnir nú hraðbyr á Kúbu og sækir í sig veðrið á leiðinni. Óveðrið hefur nú náð fellibylsstyrk en er enn að verða öflugri. Talið er að Ian muni ná landi á vesturhluta Kúbu í nótt og ná landi í Flórída seinna í vikunni.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×