Sævar Helgi Bragason, stjörnufræðikennari og vísindamiðlari, segir viðburðinn stórmerkilegan. Hann ætlar að fylgjast vel með útsendingu NASA en talið er að geimfarið muni brotlenda á smástirninu klukkan 23.14 á íslenskum tíma í kvöld.
Hér er hægt að horfa á beina útsendingu af viðburðinum.
„Það er mjög mikill spenningur í stjörnufræðisamfélaginu fyrir því af því að þarna erum við í fyrsta skipti að reyna að færa til smástirni og kanna hvort við búum yfir tækninni og getunni að koma í veg fyrir að það fari fyrir okkur eins og fór fyrir risaeðlunum,“ segir Sævar Helgi.
Eins og býfluga á framrúðu bíls
Vísindamenn munu komast að því eftir nokkrar vikur hvort tilraunin hafi heppnast, þegar búið er að mæla ferðatíma smástirnisins í kringum móðurhnöttinn. Það krefst sameiginlegs átaks flestallra sjónauka á jörðinni og munu því fjölmargir vísindamenn fylgjast grannt með. Brotlendingin verður þó líklega ekki jafn rosaleg og hún hljómar. Sævar líkir viðburðinum við býflugu sem hafnar á framúðu bíls. Geimfarið er enda ekki nema 570 kíló að þyngd en smástirnið eru um 160 metrar í þvermál.
„Þetta hefur hverfandi áhrif á smástirnið og kemur ekki til með að breyta nokkrum sköpuðum hlut öðrum en því að það kemur til með að hægja örlítið á ferðalagi sínu í kringum móðursmástirnið. Og það er akkúrat það sem við erum að reyna að mæla – hvort að þetta virki,“ segir Sævar Helgi.
Hann segir tilraunina nauðsynlega enda fjölmörg smástirni sem skera braut jarðar. Einhvern tímann í framtíðinni gæti smástirni hafnað á jörðinni, en annað eins hefur nú gerst. Loftsteinar sem eru 50 metrar í þvermál gætu lagt heila borg í rúst.
„Þetta eru svona fyrirbyggjandi aðgerðir og eitthvað sem mannkynið á að taka alvarlega af því þetta hefur svo sannarlega gerst áður i sögu jarðarinnar. Og þá hefur illa farið fyrir því lífi sem varð fyrir því. “segir Sævar Helgi og nefnir risaeðlurnar aftur sem dæmi.