Um­fjöllun og við­töl: Þór/KA - Stjarnan 0-4 | Garð­bæingar upp í annað sætið eftir stór­­sigur

Árni Gísli Magnússon skrifar
Stjarnan er komin upp í 2. sæti Bestu deildar kvenna.
Stjarnan er komin upp í 2. sæti Bestu deildar kvenna. vísir/hulda margrét

Stjarnan gjörsigraði Þór/KA, 4-0, í lokaleik 17. umferðar Bestu deildar kvenna. Sigurinn var aldrei í hættu og voru gestirnir 3-0 yfir í hálfleik. Með sigrinum fer Stjarnan upp í 2. sæti fyrir lokaumferðina sem gefur þeim Evrópusæti ef svo fer að lokum að þær hirði annað sætið.

Leikurinn var ekki nema sex mínútna gamall þegar fyrsta markið leit dagins ljós. Sædís Rún tók þá hornspyrnu þar sem hún lagði boltann meðfram jörðinni út á Ingibjörgu Lúcíu sem tók skotið í fyrsta beint í fjærhornið og kom Stjörnunni yfir.

Þór/KA hefði svo átt að jafna leikinn einngis þremur mínútum síðar en Hulda Ósk átti þá flotta fyrirgjöf inná markteiginn þar sem Sandra María var alein og þurfti bara að skalla boltann í netið en Audrey Rose Baldwin, markvörður Stjörnunnar, tókst á einhvern ótrúlega hátt að komast fyrir boltann og Stjarnan því enn yfir.

Á 26. mínútu fengu gestirnir horn og aftur spyrnti Sædís Rún boltanum inn á teiginn og í þetta sinn var það Heiða Ragney, fyrrverandi leikmaður Þór/KA, sem skallaði boltann í netið. Hún var alein inn á teignum og kláraði færið vel en það verður aftur að setja stórt spurningamerki við varnarleik Þór/KA.

Áfram héldu Stjörnukonur og á 39. mínútu bætti Katrín Ásbjörnsdóttir, einnig fyrrverandi leikmaður Þór/KA, þriðja markinu við. Aníta Ýr komst þá full auðveldlega fram hjá varnarmönnum Þór/KA hægra megin og komst inn á teiginn þar sem hún renndi boltanum á Katrínu sem var dauðafrí inn á markteignum og setti boltann í tómt markið.

Á 57. mínútu skoraði Aníta Ýr frábært mark fyrir Stjörnuna þegar hún fékk langan bolta þvert yfir völlinn, tók vel á móti boltanum, labbaði fram hjá tveimur varnarmönnum Þór/KA og setti boltann laglega í netið. Staðan 4-0 og meira en hálftími eftir.

Eftir fjórða markið fjaraði leikurinn svolítið út. Stjörnukonur héldu boltanum vel innan liðsins og gáfu nánast engin færi á sér og voru líklegri til að bæta við heldur en nokkurn tímann að heimakonur myndu jafna.

Lokatölur 4-0 fyrir Stjörnunni.

Af hverju vann Stjarnan ?

Þær voru einfaldlega miklu betri í dag og tókst auðveldlega að skora fjögur mörk gegn mjög svo götóttum varnarleik Þór/KA.

Hverjar stóðu upp úr?

Aníta Ýr Þorvaldsdóttir var algjörlega frábær úti hægra megin í dag og réðu varnamenn Þór/KA lítið sem ekki neitt við hana á köflum. Hún leggur upp þriðja markið og skorar svo fjórða markið eftir frábæran einleik. Heiða Ragney var flott á miðjunni og stjórnaði spilinu vel. Í heildina bara flott liðsframmistaða.

Hvað gekk illa?

Það gekk eiginlega allt illa hjá Þór/KA. Liðið fær á sig tvö mörk beint eftir hornspyrnu, verst illa og nær engum takti í uppspil sitt sem endaði yfirleitt með misheppnaðri sending eða löngum bolta fram sem endaði hjá mótherja.

Hvað gerist næst?

Lokaumferð deildarinnar fer fram laugardaginn 1. október kl. 14:00. Þór/KA fer á Meistaravelli og mætir föllnum KR-ingum í leik sem skiptir í raun engu. Stjarnan fær Keflavík í heimsókn í Garðabæinn þar sem Stjarnan getur tryggt sér Evrópusæti.

„Erfitt að koma hérna”

Katrín Ásbjörnsdóttir hefur verið frábær í sumar.Vísir/Hulda Margrét

Katrín Ásbjörnsdóttir, leikamaður Stjörnunnar, skoraði eitt mark í 4-0 útsigri gegn Þór/KA í dag og var að vonum sátt með frammistöðu liðsins.

„Bara góð spilamennska og einbeiting í lagi. Það er erfitt að koma hérna og sérstaklega að spila hérna inni þannig ég er bara mjög sátt með liðið í dag og stolt af stelpunum.”

Leikurinn fór fram í Boganum og Stjörnunni virtist líða mun betur á gervigrasinu heldur en Þór/KA.

„Já greinilega, við bara spiluðum vel og vorum ekkert að láta þetta trufla okkur en eins og ég segi er erfitt að koma hérna og það myndast einhver svaka stemming hérna inni þannig að ég er bara mjög ánægð.”

Stjarnan fór með sigrinum upp í 2. sætið sem myndi gefa liðinu Evrópusæti á næsta tímabili en ein umferð er eftir af mótinu.

„Þetta er náttúrulega það skemmtilegasta sem þú gerir þannig jú þetta er það sem við stefndum að í dag og setur okkur í góða stöðu en við þurfum að klára síðasta leikinn á laugardaginn.”

Aníta Ýr Þorvaldsdóttir var skoraði eitt mark í dag og lagði upp annað. Katrín var sammála undirrituðum um að hún hafi átti frábæran leik.

„Bara geggjuð, við mættum hérna saman hálftíma fyrir leik, og það var greinilega ekkert að hafa nein áhrif á hana og bara mjög flott í dag. Skorar mark og leggur upp og bara geggjuð. Gott að fá hana til baka.”

Audrey Rose Baldwin stóð óvænt í marki Stjörnunnar eftir að hafa komið til liðsins á neyðarláni frá HK fyrr í dag og gat Katrín ekki annað en hrósað henni.

„Mér fannst hún bara standa sig vel og bara kemur flott inn í þetta hjá okkur.”

Jón Stefán: Við þjálfararnir tökum líka ábyrgð þegar svona fer

Perry Mclachlan og Jón Stefán Jónsson.Mynd/Þór/KA

Jón Stefán Jónsson, annar þjálfara Þór/KA, fór ekki leynt með vonbrigði sín vegna frammistöðu síns liðs eftir 4-0 tap á heimavelli fyrir Stjörnunni.

„Við bara gerðum þetta alveg rosalegt erfitt. Fá á sig tvö mörk eftir horn og klúðrum dauðafæri í stöðunni 1-0 og klúðrum dauðafæri í stöðunni 2-0. Ég ætla ekki einu sinni að vera ræða varnarleikinn í hinum tveimur mörkunum, við skulum bara sleppa því, en þetta eru ungar stelpur og þær læra af þessu en ég ætla líka bara að sjálfsgöðu að taka það á mig að við séum ekki betur mótiveraðar en þetta í byrjun leiks.”

Hafði það áhrif á frammistöðuna að ekkert var undir í leiknum fyrir liðið?

„Ég veit það ekki. Ég myndi aldrei láta þetta gerast ef ég hefði haft svarið við því fyrir fram. Auðvitað er spennufall, öryggi í deildinni og allt svoleiðis, en við eigum bara að gera þetta betur.”

Aníta Ýr var oft alein úti á hægri vængnum og færslan í varnarleik Þór/KA var langt frá því að vera í lagi.

„Við viljum verjast þétt og það er bara skipun frá okkur. Það sem vantar þá frekar er þá pressa á boltamanninn þeim megin sem hann er því hann á ekkert að komast yfir, hún getur staðið þarna eins og hún vill ef hún fær aldrei boltann þá skiptir það ekki máli, þannig að það er bara hluti af okkar leik. Sjálfsagt mál að við þjálfararnir tökum líka ábyrgð þegar svona fer.”

Jón var að lokum spurður hvort það yrði erfitt að gíra sig upp lokaleikinn gegn KR um komandi helgi og var svarið einfalt:

„Nei vinur, það verður sko erfitt eftir þennan leik, það verður tekið á því þar.”

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira