Enski boltinn

Segir að Alexander-Arn­old verjist eins og B-deildar­leik­maður

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Trent Alexander-Arnold hefur lagt upp ófá mörkin fyrir Liverpool síðustu árin.
Trent Alexander-Arnold hefur lagt upp ófá mörkin fyrir Liverpool síðustu árin. getty/Simon Stacpoole

Varnarhæfileikar Trens Alexander-Arnold eru ekki sæmandi leikmanni í ensku úrvalsdeildinni. Þetta segir Frank Leboeuf, fyrrverandi leikmaður Chelsea og heims- og Evrópumeistari með franska landsliðinu.

Alexander-Arnold hefur verið lykilmaður hjá Liverpool undanfarin ár og unnið allt sem hægt er að vinna með félaginu. Enginn velkist í vafa um hversu hæfur sóknarmaður hann er en hann hefur oft verið gagnrýndur fyrir varnarleik sinn, nú síðast af Leboeuf.

„Horfðu á Trent Alexander-Arnold. Ég elska sóknarleikinn hans. En hann verst eins og hann sé í B-deildinni,“ sagði Leboeuf og bætti við að leikstíll Liverpool henti enska landsliðsmanninum fullkomlega.

„Leikkerfi Jürgens Klopp er það eina sem virkar fyrir hann. Þegar það virkar ekki eins vel og það hefur gert á þessu tímabili koma varnarveikleikar Alexander-Arnolds í ljós.“

Alexander-Arnold sat allan tímann á varamannabekknum þegar England tapaði fyrir Ítalíu, 1-0, í Þjóðadeildinni á föstudaginn. Englendingar féllu þar með í B-deild Þjóðadeildarinnar. Alexander-Arnold er ekki í leikmannahópi Englands sem mætir Þýskalandi í kvöld í síðasta leik sínum í A-deildinni í bili.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×