Innlent

Hefja aftur bólu­setningar­á­tak í Laugar­dals­höll

Fanndís Birna Logadóttir skrifar
Laugardalshöllin opnar aftur fyrir bólusetningar á morgun. 
Laugardalshöllin opnar aftur fyrir bólusetningar á morgun.  Vísir/Vilhelm

Bólusetningar með fjórða skammt bóluefnis gegn Covid-19 hefjast í Laugardalshöll á morgun fyrir íbúa höfuðborgarsvæðisins sextíu ára og eldri. Boðið verður upp á inflúensubólusetningu samhliða. Stefnt er á að bjóða yngri einstaklingum örvunarskammt eftir að átakinu lýkur. 

Bólusetningarátakið hefst formlega á morgun en bólusett verður alla virka daga milli klukkan 11 og 15 til og með föstudagsins sjöunda október. Allir sextíu ára og eldri eru hvattir til að mæta en fjórir mánuðir þurfa að hafa liðið frá þriðja skammt. 

Að því er kemur fram í tilkynningu ummálið verður notast við nýja útgáfu af bóluefni gegn Covid og því verður ekki boðið upp á grunnbólusetningu í Laugardalshöll á sama tíma. Samhliða örvunarbólusetningu verður þó boðið upp á bólusetingu við inflúensu fyrir þá sem vilja. 

Utan höfuðborgarsvæðisins sjá heilbrigðisstofnanir um bólusetningar fyrir sína skjólstæðinga.

Eftir að bólusetningarátakinu lýkur er stefnt á að bjóða einstakingum yngri en 60 ára upp á örvunarbólusetningu á heilsugæslustöðvum. 

Að því er kemur fram á covid.is eru 78 prósent landsmanna fullbólusett en þar er miðað við tvo skammta af bóluefni. Þá hafa hátt í 210 þúsund einstaklingar fengið að minnsta kosti þrjá skammta og tæplega 28 þúsund hafa fengið fjóra skammta. 


Tengdar fréttir

Hætta að bólusetja í höllinni ári síðar

Fjöldabólusetningar hófust í Laugardalshöll í febrúar 2021 og nú ári síðar stendur til að þeim muni ljúka. Þeir sem eiga eftir að fá bólusetningu eða örvunarskammt munu eftir næstu viku geta leitað til heilsugæslunnar. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×