Innlent

Land­lækni berast kvartanir vegna sál­fræðings sem sagður er starfa án starfs­leyfis

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Alma Möller er landlæknir.
Alma Möller er landlæknir. vilhelm gunnarsson

Embætti landlæknis hefur fengið ábendingar um að karlmaður sinni störfum sálfræðings þrátt fyrir að hafa ekki til þess starfsleyfi. Fjölmargir kvarta undan því að hafa greitt honum fyrir ADHD greiningar sem hvergi séu teknar gildar.

Sálfræðingurinn sem um ræðir er Jón Sigurður Karlsson og hefur starfað sem klínískur sálfræðingur í áraraðir. Hann hefur ekki lengur starfsleyfi en nafn hans er ekki að finna í starfsleyfaskrá Embættis landlæknis.

Tilkynningar berast ADHD samtökunum

Fréttastofa hefur rætt við fjölmarga skjólstæðinga Jóns sem segjast hafa greitt honum fyrir ADHD greiningar sem síðan hafi ekki verið teknar gildar af geðlæknum. Þá hafa ADHD samtökunum borist tilkynningar um að greiningar frá sálfræðingnum standist ekki skoðun.

Í hvaða stöðu er þá fólk sem er með greiningu frá þessum manni? 

„Það er ekki með greiningu. Það er ekki flóknara en það. Hann fer ekki eftir neinum leiðbeiningum í dag. Það getur vel verið að hann hafi gert það áður fyrr, en af þeim dæmum sem ég hef heyrt beint af undanfarna mánuði og jafnvel ár þá er þetta bara texti af blaði sem fer ekki eftir neinum klínískum aðferðum eða annað,“ sagði Vilhjálmur Hjálmarsson, formaður ADHD samtakanna.

Tengir skjólstæðinga við geðlækna erlendis

Sálfræðingar geta sinnt ADHD greiningum en ákvörðun um lyfjameðferð og veitingu lyfja er í höndum geðlækna. Jón hefur boðið skjólstæðingum sínum upp á að hitta danska og portúgalska geðlækna sem skrifað geta upp á lyf sem aðeins er hægt er að leysa út þar ytra. Fréttastofa hefur heimildir fyrir því að Jón hafi ferðast sjálfur út til að sækja lyf fyrir skjólstæðing.

Segist aðstoða skjólstæðinga

Jón segist í samtali við fréttastofu tengja skjólstæðinga við geðlækna erlendis vegna læknaskorts hér á landi. Með þessu sé hann að eigin sögn að hjálpa skjólstæðingum sínum og telur íslensk lög ekki standa í vegi fyrir því, þá segist hann hafa kært ýmsar ákvarðanir embættis landlæknis til heilbrigðisráðuneytisins.

Fólk látið borga fyrir þjónustu sem nýtist ekki

Vilhjálmur segir að það sé ekki venjan að sálfræðingar tengi skjólstæðinga við lækna erlendis í leit að lyfjum.

„Nei, það er eitt að vera búsettur erlendis og koma hingað með greiningu að utan. Það er til ferli um það sem hefur hingað til ekki verið skýrt. En þetta er ekki viðurkennt beint nema það sé farið eftir ákveðnum reglum.“

Vilhjálmur Hjálmarsson er formaður ADHD samtakanna.Vísir/Arnar

Greiningarferlið sé nokkuð strangt.

„Ef að þessir aðilar eru ekki að gera þetta samkvæmt klínískum leiðbeiningum. Ef þetta er bara texti á blaði sem byggir ekki á neinum viðurkenndum aðferðum. Eða þá að geðlæknir er ekki viðurkenndur eða er ekki innan viðurkennda tryggingakerfisins, ekki einu sinni í sínu landi, þá er ekki hægt að taka mark á því. Þannig þarna er fólk bara í raun og veru látið borga fyrir eitthvað sem er bara út um gluggann.“

Sagður starfa þrátt fyrir að vera ekki með starfsleyfi

Embætti landlæknis hefur fengið ábendingar um að Jón sinni enn störfum þrátt fyrir að vera ekki með starfsleyfi. Í samtali við fréttastofu segist Jón þurfa að fylgja eftir málum skjólstæðinga og að ekkert banni honum að veita þeim ráðgjöf. Það geri hann sem markþjálfi en ekki sem sálfræðingur. Jón segist ekki lengur framkvæma greiningar.

Í skriflegu svari frá embætti landlæknis segir að embættinu sé ekki heimilt að veita upplýsingar um einstök mál en að þeir sem ekki hafi starfsleyfi heyri ekki undir eftirlit embættisins. Möguleg brot á heilbrigðislöggjöf heyri undir lögreglu og myndi embættið vísa slíkum málum þangað. Embættið segist ekki geta gefið upp hvort það hafi vísað málinu til lögreglu og lögregla segist ekki geta veitt upplýsingar.

Birtingarmynd alvarlegs ástands

Vilhjálmur segir málið birtingarmynd á erfiðri stöðu ADHD sjúklinga og gríðarlegs skorts á geðlæknum.

„Það eru tíu, tuttugu ár síðan menn vissu að það yrði skortur á geðlæknum. Í slíku ástandi þá gerast svona hlutir. Þetta ákveðna tilfelli er bara sorglegt dæmi um einn einstakling sem fer lengra en hann átti að gera.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×