Erlent

Hægri­flokkarnir stefna á stór­sigur með öfga­hægri­konu í farar­broddi

Fanndís Birna Logadóttir skrifar
Leiðtogar hægriflokkanna, þar á meðal Bandalagsins, Áfram Ítalíu, Bræðra Ítalíu, héldu fjöldafund í Róm á fimmtudag. Það er talið líklegt að Giorgia Meloni, leiðtogi Bræðra Ítalíu, verði næsti forsætisráðherra. 
Leiðtogar hægriflokkanna, þar á meðal Bandalagsins, Áfram Ítalíu, Bræðra Ítalíu, héldu fjöldafund í Róm á fimmtudag. Það er talið líklegt að Giorgia Meloni, leiðtogi Bræðra Ítalíu, verði næsti forsætisráðherra.  AP/Alessandra Tarantino

Ítalir ganga til þingkosninga á morgun og er baráttan hörð á milli flokkanna á hægri og vinstri vængnum. Væntanleg orkukreppa og stríðið í Úkraínu hafa áhrif á kosningarnar í ár en allt stefnir í að öfgahægriflokkur fái forsætisráðherrastólinn í fyrsta sinn frá því að Mussolini var í embætti. Kona gæti í fyrsta sinn í sögunni orðið forsætisráðherra Ítalíu.

Þingkosningar fara fram á fimm ára fresti á Ítalíu en boðað var til kosninga í ár eftir að samsteypuríkisstjórn Mario Draghi, fyrrverandi seðlabankastjóra Evrópu, sprakk í júlí. Það er ekki óalgengt að ríkisstjórnir springi á Ítalíu en á síðustu 30 árum hafa fjórtán forsætisráðherrar og nítján ríkisstjórnir tekið við. 

Fjölmargir flokkar eru í framboði en samkvæmt könnunum eru fimm flokkar einna helst að berjast um að fá að leiða nýja ríkisstjórn. 

Baráttan er á milli fimm flokka.AP

Allt stefnir í stjórn hægriflokkanna

Öfgahægriflokkurinn Bræður Ítalíu (i. Fratelli d‘Italia) hefur aukið fylgi sitt gífurlega frá því að síðustu kosningar fóru fram árið 2018. Samkvæmt síðustu könnun Ipsos mælist flokkurinn með 25,1 prósent fylgi en næst á eftir þeim kemur Lýðræðisflokkurinn (i. Partito Democratico) með 20,5 prósent atkvæða. 

Fimm stjörnu hreyfingin (i. Movimento 5 Stelle) var stærsti flokkurinn í kosningunum árið 2018 en mælist nú þriðji stærsti samkvæmt könnunum, með 13,3 prósent fylgi. Skammt á eftir kemur Bandalagið (i. Lega) með 12,5 prósent atkvæða og loks Áfram Ítalía (i. Forza Italia) með átta prósent fylgi. 

Mjög líklegt er að ný ríkisstjórn verði mynduð af flokkum á hægri vængnum, þar á meðal Bræðrum Ítalíu, Bandalaginu og Áfram Ítalíu. 

Saman lofa þau lægri sköttum á orku og nauðsynjavörum og hlutfallsskatt fyrir aðila með sjálfstæðan atvinnurekstur. Þá vilja þau aflétta banni á kjarnorku í Ítalíu, auka framlög til fjölskyldna og taka á óreglulegum komum flóttamanna.

Þó flokkarnir séu samstíga í mörgum málefnum er mögulegt að afstaða vonarstjörnu Bræðra Ítalíu til Úkraínustríðsins muni valda ágreiningi. 

Bræður Ítalíu - Giorgia Meloni (f. 1977)

Giorgia Meloni er leiðtogi Bræðra Ítalíu.AP/Gregorio Borgia

Meloni tók við sem leiðtogi Bræðra Ítalíu árið 2014 en hún hafði áður verið ungmennaráðherra í ríkisstjórn Silvio Berlusconi frá árinu 2008 til 2011, og varð þá yngsti ráðherrann í sögu Ítalíu. Hún hefur setið sem þingmaður í neðri deild frá árinu 2006 og frá árinu 2020 hefur hún verið formaður flokks íhalds- og umbótasinna Evrópu. 

Hún var andvíg því að fara inn í samsteypuríkisstjórn Mario Draghi og Bræður Ítalíu var þar með eini stóri flokkurinn sem ekki átti sæti í henni. 

Meloni er talin líklegust til að taka við sem forsætisráðherra eftir kosningarnar en gangi það eftir yrði hún fyrsti öfgahægri forsætisráðherrann frá því að einræðisherrann Benito Mussolini var við völd frá 1922 til 1945. Þá yrði hún einn yngsti forsætisráðherrann í sögunni og fyrsta konan. 

Sjálf hefur Meloni gefið það út að hún líti ekki á sjálfa sig sem fasista en sem táningur var hún í ungliðahreyfingu nýfasista sem studdi Mussolini.

Slagorð Meloni er Guð, fjölskyldan og föðurlandið og hefur hún lýst því yfir að hún vilji breyta aðkomu Ítalíu að Evrópusambandinu, en styður þó ekki svokallað Italexit eða að Ítalía dragi sig úr evrusvæðinu. Hún vill lækka skatta, endurskoða viðbragðsaðgerðir vegna Covid og koma því í gegn að forsetinn sé þjóðkjörinn. Þá er hún á móti auknum réttindum hinsegin einstaklinga og komu múslímskra flóttamanna. 

Það vekur þó athygli að hún styður Atlantshafsbandalagið og aðgerðir til stuðnings Úkraínu en aðrir flokkar á hægri vængnum hafa hallast frekar að sjónarmiðum Rússlandsforseta og gagnrýnt refsiaðgerðir Vesturlandanna. 

Lýðræðisflokkurinn - Enrico Letta (f. 1966)

Enrico Letta er leiðtogi Lýðræðisflokksins.AP/Alessandra Tarantino

Letta er einn helsti keppinautur Meloni en hann var forsætisráðherra Lýðræðisflokksins frá 2013 til 2014, þar til hann missti embættið til samflokksmanns síns Matteo Renzi, sem er í dag leiðtogi Lifi Ítalía. Í kjölfarið sagði Letta skilið við flokkinn og fór að kenna í París en hann sneri aftur til Ítalíu í fyrra og var þá kjörinn leiðtogi Lýðræðisflokksins. 

Áður hafði hann verið aðstoðarframkvæmdastjóri flokksins árin 2009 til 2013 auk þess sem hann var yfir ráðherranefnd Ítalíu í ríkisstjórn Romano Prodi 2006 til 2008, viðskipta- og iðnaðarráðherra í ríkisstjórnum Massimo D'Alema og Giuliano Amato 1999 til 2001 og ráðherra samfélagsmála 1998 til 1999. 

Markmið Letta er að koma í veg fyrir að öfgahægrið komist til valda en hann vill einnig koma á níu evra lágmarkslaunum, auka fjárfestingar í endurnýjanlega orku, bæta skólamál og auðvelda börnum innflytjenda að fá ríkisborgararétt. Öfugt við Meloni vill hann efla hinsegin samfélagið og lögleiða hjónabönd samkynhneigðra. 

Bandalagið - Matteo Salvini (s. 1973)

Matteo Salvini er leiðtogi Bandalagsins.AP/Antonio Calanni

Salvini hefur verið leiðtogi Bandalagsins frá árinu 2013 og var aðstoðarforsætisráðherra og innanríkisráðherra í ríkisstjórn Giuseppe Conte 2018 til 2019. Þá hefur hann setið sem öldungardeildarþingmaður frá árinu 2018, var þingmaður Evrópuþingsins frá 2004 til 2006 og svo aftur 2009 til 2018, og þingmaður í neðri deild frá 2008 til 2009 og aftur í stuttan tíma árið 2013.

Í ríkisstjórnarsamstarfinu við Fimm stjörnu hreyfinguna reyndi Salvini að koma Conte frá til að hann gæti sjálfur tekið við sem forsætisráðherra. Það gekk þó ekki eftir en Conte tók þá Lýðræðisflokkinn inn í samstarfið í staðinn fyrir Bandalagið. 

Salvini er líkt og félagar sínir á hægri vængnum á móti komu flóttamanna en meðan hann starfaði sem innanríkisráðherra þá reyndi hann eftir fremsta megni að koma flóttamönnum frá Líbíu, sem höfðu komið með bátum yfir Miðjarðarhafið, frá Ítalíu. Þannig lét hann flóttamenn hanga dögum og jafnvel vikum saman í troðnum bátum og var meðal annars ákærður fyrir mannrán í tengslum við stefnu sína. 

Ólíkt Meloni er Salvini stuðningsmaður Rússlandsforseta og hefur gagnrýnt aðgerðir Vesturlandanna gegn Rússum. 

Áfram Ítalía - Silvio Berlusconi (f. 1936)

Silvio Berlusconi er leiðtogi Áfram Ítalíu.AP/Claudio Furlan

Berlusconi hefur þrisvar sinnum verið forsætisráðherra, fyrst frá 1994 til 1995, næst frá 2001 til 2006, og að lokum frá 2008 til 2009. Þá var hann þingmaður Evrópuþingsins frá 1999 til 2001 og svo aftur frá 2019, og þingmaður í neðri deild ítalska þingsins 1994 til 2013. Árið 2013 sat hann sem öldungadeildarþingmaður í um hálft ár en var síðan sviptur sæti sínu vegna skattsvika. 

Ekki er talið að Berlusconi sækist eftir því að verða forsætisráðherra aftur, heldur frekar að hann vilji sæti í öldungardeildinni aftur. Hann hefur lýst því yfir að hann vilji starfa með Meloni og Salvini, enda samstíga þegar kemur að helstu málefnum. 

Fimm stjörnu hreyfingin - Giuseppe Conte (f. 1964) 

Giuseppe Conte er leiðtogi Fimm stjörnu hreyfingarinnar. AP/Cecilia Fabiano

Conte var forsætisráðherra frá 2018 til 2021 en hann var þá óháður og tók við embættinu þar sem leiðtogar Fimm stjörnu hreyfingarinnar og Bandalagsins gátu ekki komið sér saman um hver skyldi verða forsætisráðherra. 

Þrátt fyrir að hann hafi náð sér á strik eftir tilraun Salvini til að koma Conte frá hrundi ríkisstjórnin endanlega þegar Lifi Ítalía, sem kom inn í stað Bandalagsins, dró sig úr ríkisstjórnarsamstarfinu í janúar 2021. Conte tók síðan við sem leiðtogi Fimm stjörnu hreyfingarinnar sama ár. Hann sat þá í ríkisstjórn Mario Draghi þar til í sumar. 

Hann styður líkt og Letta níu evra lágmarkslaun og auðvelda börnum innflytjenda að fá ríkisborgararétt en vill fella niður héraðsfyrirtækjaskatt og mótmælti vopnasendingum til Úkraínu í ár. 

Hátt í þúsund þingmenn eru núna efri og neðri deild ítalska þingsins í dag. Eftir kosningarnar verða þeir aðeins 600. Getty/Alessandra Benedetti

Breytingar á þingmannafjölda

Þingmannafjöldinn var skorinn niður um þriðjung með þjóðaratkvæðagreiðslu árið 2020 en eftir kosningarnar um helgina verða 400 þingmenn í fulltrúadeild í staðinn fyrir 630 og 200 í öldungadeild í staðinn fyrir 315. Þá eru allir átján ára og eldri með atkvæðisrétt fyrir báðar deildirnar en áður gátu aðeins þeir sem voru 25 ára og eldri kosið inn þingmenn í öldungadeildina.

Þingmannafjöldanum er skipt niður á héruð, þar á meðal þó nokkur þar sem aðeins einn þingmaður er kjörinn, alls rúmlega 36 prósent af heildarfjölda þingmanna, og gildir þá að sá sem fær flest atkvæði komist inn.

Til að geta talist með þar þarf flokkur að fá að minnsta kosti eitt prósent allra atkvæða á landsvísu og tilheyra bandalagi sem fær minnst tíu prósent atkvæða. Í héruðum þar sem fleiri en einn þingmaður er kjörinn þarf flokkur að fá að minnsta kosti þrjú prósent atkvæða á landsvísu.

Alls eru 27 kjördæmi á Ítalíu en kjörstaðir opna klukkan sjö á sunnudagsmorgun að staðartíma og verða opnir til klukkan ellefu um kvöldið. Um leið og kjörstaðir loka hefst talningin og munu fjölmiðlar þá birta útgönguspár. Almennt má gera ráð fyrir að nokkur skýr mynd verði komin á stöðu mála strax á mánudagsmorgun.

Eftir að öll atkvæði hafa verið talin mun Sergio Mattarella, forseti Ítalíu, hefja viðræður um næsta forsætisráðherra og stjórnarmyndun og loks velja þann sem hann telur njóta stuðnings flokkanna sem fóru með sigur af hólmi og trausts þingsins. 


Tengdar fréttir

Snúa baki við Draghi

Búist er við því að forsætisráðherra Ítalíu, Mario Draghi segi af sér nú á næstunni. Þetta er í kjölfar þess að Draghi missti stuðning þriggja flokka í stjórnarsamstarfi sínu en flokkarnir þrír tóku ekki þátt í kosningu um traustsyfirlýsingu við áform Draghi í dag.

Ólga á Ítalíu

Fimm stjörnu hreyfingin á Ítalíu hefur beitt forsætisráðherra landsins Mario Draghi, miklum þrýstingi nú á síðustu misserum en hún er hluti af ríkisstjórn Draghi. Í gær sniðgekk hreyfingin kosningu frumvarps um framfærslukostnað og leiddi þannig í ljós vantraust sitt á Draghi. Forsætisráðherrann hefur boðist til þess að segja af sér en forseti Ítalíu, Sergio Mattarella hafnaði því.

Ríkisstjórnin á Ítalíu er sprungin

Ríkisstjórnin á Ítalíu féll rétt í þessu eftir að flokkurinn Five Star sagði sig úr stjórnarsamstarfi. Mario Draghi, forsætisráðherra Ítalíu mun segja af sér í kvöld.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×