Fótbolti

„Kemur mikill talandi og reynsla með tilkomu Arons í hjarta varnarinnar“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Arnar Þór Viðarsson er landsliðsþjálfari Íslands.
Arnar Þór Viðarsson er landsliðsþjálfari Íslands. Vísir/Diego

Arnar Þór Viðarsson, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í fótbolta, var sáttur við varnarleik lærisveina sinna þegar liðið vann 1-0 sigur gegn Venesúela í vináttualandsleik í Vínarborg í dag.

„Fyrst og fremst ánægður með sigurinn og það að halda hreinu. Mér fannst við hafa stjórn á þessum leik og varnarleikurinn vera góður. Þeir fengu einungis færi þarna í tvö skipti eftir mistök hjá okkur. Annars vorum við þéttir til baka,“ sagði Arnar Þór í samtali við Viaplay að leik loknum.

„Það kemur mikill talandi og reynsla með tilkomu Arons Einars í hjarta varnarinnar. Hann færir ró í gegnum allt liðið og mér fannst samvinnan í varnarleiknum í gegnum allt liðið góð. Þetta gleður mig mikið,“ sagði þjálfarinn enn fremur.

„Við dreifðum álaginu vel í leiknum og þeir sem komu inná voru kraftmiklir og öflugir. Það kom ekkert niður á varnarskipulaginu, spilinu eða tempóinu þó að við gerðum sex breytingar sem er jákvætt,“ sagði hann.

„Arnór Sigurðsson varð fyrir höggáverka sem er betra en ef meiðsli verða án kontakts. Við bindum vonir við að hann verði klár í slaginn á þriðjudaginn kemur,“ sagði Arnar Þór sem vildi annars ekkert gefa upp um líklegt byrjunarlið Íslands þegar liðið mætir Albaníu í lokaumferð í riðlakeppni B-deildar Þjóðadeildarinnar í Tirana í næstu viku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×