Fótbolti

Stelpurnar okkar æfa í Portúgal en gætu þurft að fara til Belgíu

Sindri Sverrisson skrifar
Íslenska landsliðið er á leið í einn, stakan úrslitaleik sem ræður því hvort liðið spilar á HM í fyrsta sinn næsta sumar.
Íslenska landsliðið er á leið í einn, stakan úrslitaleik sem ræður því hvort liðið spilar á HM í fyrsta sinn næsta sumar. Getty/Patrick Goosen

Kvennalandslið Íslands í fótbolta mun æfa í Algarve í Portúgal fyrir leikinn sem ræður úrslitum um það hvort liðið verður með á HM í Eyjaálfu næsta sumar.

Eftir góðan árangur í undankeppni HM fer Ísland beint á seinna stig umspilsins um sæti á HM, en mætir þar sigurliðinu úr leik Portúgals og Belgíu sem fram fer 6. október.

Dregið var um það hvort Ísland fengi heimaleik eða útileik og er ljóst að liðið þarf að spila leikinn sinn 11. október á útivelli, annað hvort í Portúgal eða Belgíu. Íslensku stelpurnar fá því góðan tíma til að undirbúa sig en fá þó ekki að vita hvaða andstæðingum þær mæta fyrr en fimm dögum fyrir leik.

Samkvæmt upplýsingum Vísis varð Algarve fyrir valinu sem æfingasvæði einfaldlega vegna góðrar aðstöðu og þess að auðvelt er að fljúga þaðan til Belgíu. Það var því ekki svo að verið væri að „veðja á“ að Portúgal myndi vinna Belgíu og að leikur Íslands yrði þar með í Portúgal.

Þorsteinn Halldórsson landsliðsþjálfari tilkynnir í dag hvaða leikmenn hann ætlar að taka með sér til Algarve en ljóst er að breytingar eru á hópnum því Sif Atladóttir lagði landsliðsskóna á hilluna fyrr í þessum mánuði, eftir tap Íslands gegn Hollandi í síðasta leiknum í undankeppni HM.

Ef Ísland vinnur andstæðing sinn, Portúgal eða Belgíu, í venjulegum leiktíma eða framlengingu þá er liðið öruggt um sæti á HM. Vinni Ísland leikinn í vítaspyrnukeppni er mögulegt að liðið þyrfti að fara í aukaumspil í Eyjaálfu í febrúar, gegn liðum frá öðrum heimsálfum, til að komast inn á HM.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.