Enski boltinn

Ten Hag fær ekki að versla leikmenn í janúar

Atli Arason skrifar
Erik ten Hag er knattspyrnustjóri Manchester United.
Erik ten Hag er knattspyrnustjóri Manchester United. Getty Images

Erik ten Hag, knattspyrnustjóri Manchester United, fær ekki að kaupa fleiri leikmenn á þessu tímabili en fær þess í stað að eyða pening í næsta sumarglugga.

Manchester United er í tæpu tveggja vikna fríi vegna landsleikjagluggans en liðið þarf ekki að spila næst fyrr en 2. október gegn Manchester City. Ten Hag og forráðamenn United segjast ætla að nýta frítímann vel í að skipuleggja framtíðina.

„Þða hafa verið mörg fundarhöld. Við verðum að bæta innviði félagsins og skoða janúar félagaskiptagluggann og gluggann næsta sumar,“ sagði Erik ten Hag við the Athletic

Samkvæmt the Athletic mun Ten Hag hins vegar ekki fá úr miklu að moða í janúar en Manchester United eyddi rúmlega 240 milljónum evra í félagaskipti í sumar, helmingi meira en áætlað var þegar Ten Hag tók upphaflega við liðinu.

Ef Manchester United ætlar á annað borð að bæta við leikmannahóp sinn í janúar þá verður félagið að byrja á því að selja leikmenn til að fjármagna nýju félagaskiptin.

Undanfarið hefur Manchester United þó ekki verið svo kaupglatt í vetrarglugganum en aðeins þrír leikmenn hafa komið til félagsins á þessum tímapunkti árs síðustu fimm ár. Alexis Sanchez kom til United í janúar 2018, Bruno Fernandes kom í janúar 2020 á meðan Amad Diallo kom í janúar 2021. Enginn félagaskipti voru gerð í janúar 2019 og 2022, annað en seldir og lánaðir leikmenn.

Til samanburðar fékk United sex nýja leikmenn í félagaskiptaglugganum sem var að ljúka þann 1. september síðastliðin.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.